Fótbolti

„Wales. Golf. Madrid. Í þessari röð“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
„Wales. Golf. Madrid. Í þessari röð,“ stóð á fána sem Gareth Bale hélt á þegar hann fagnaði því að Wales væri komið á EM í gær. Walesverjar tryggðu sér farseðilinn á EM 2020 með 2-0 sigri á Ungverjum.

Ólíklegt verður að teljast að þetta uppátæki Bales mælist vel fyrir hjá félagsliði hans, Real Madrid.

Bale hefur verið gagnrýndur fyrir að hafa meiri áhuga á að spila fyrir Wales og leika sér í golfi en að spila fyrir Real Madrid.

Ummælin „Wales. Golf. Madrid. Í þessari röð“ eru komin frá Predrag Mijatovic, fyrrverandi leikmanni Real Madrid sem getur sér til að forgangsröðin hjá Bale sé þannig.

Stuðningsmenn velska landsliðið hafa búið til stuðningssöngva með ummælum Mijatovic. Bale segist hafa gaman að uppátæki stuðningsmannanna og í gær bætti hann um betur og fagnaði EM-sætinu með fána með ummælum Mijatovic.

Óvíst er hvort forráðamenn Real Madrid hafi jafn gaman að þessu og Bale.

Walesverjinn var orðaður við brottför frá Real Madrid í allt sumar en endaði á því að vera um kyrrt.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.