Kosið var í nefndir og ráð á vegum borgarinnar á borgarstjórnarfundi í gær um leið og nýr meirihluti Samfylkingarinnar, Vinstri - grænna, Framsóknarflokksins og Frjálslyndra og óháðra tók við völdum. Átta konur sitja nú í borgarstjórn og sjö karlar en tvær kvennanna leysa af karlmenn sem eru í leyfi.
Karlar í framkvæmdaráði - konur í leikskólaráði
Þegar horft er til níu fagráða borgarinnar eru 18 fulltrúar hins svokallað X-lista konur og þá eru jafnmargir fulltrúar meirihlutans karlar. Sextán fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í ráðunum eru hins vegar karlar en ellefu fulltrúar konur. Þetta þýðir að samtals eru 34 fulltrúar í ráðum borgarinnar karlar en 29 konur og hlutfallið því 53 prósent á móti 47 prósentum.
Athygli vekur að kynjaskipting er æði misjöfn milli ráða. Þannig eru sex karlar og ein kona í framkvæmdaráði og íþrótta- og tómstundaráði borgarinnar en hlutföllin snúast við í leikskólaráði og menntaráði.
Einungis konur í mannréttindanefnd
Þegar svo horft er til tveggja stórra stjórna sem Reykjavíkurborg á aðild að er kynjaskiptinin misjöfn. Í stjórn Faxaflóahafna eru fimm fulltrúar frá borginni, þrír karlar og tvær konur. Hins vegar er aðeins ein kona í stjórn Orkuveitunnar á vegum borgarinnar en fjórir karlar.
Þá vekur athygli að í mannréttindanefnd borgarinnar sitja einungis konur, þrjár frá meirihlutanum og tvær frá minnihlutanum. Þá sitja tveir karlar í stjórn skipulagssjóðs Reykjavíkurborgar og sömuleiðis sitja bara karlar í stjórn innkauparáðs borgarinnar.