Enski boltinn

Átrúnaðargoð nýja Liverpool mannsins var hinn Ronaldo

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Takumi Minamino og Ronaldo.
Takumi Minamino og Ronaldo. Samsett mynd/Getty

Takumi Minamino átti sér átrúnaðargoð þegar hann var lítill en sá sami fór mikinn á japanskri grundu þegar nýi leikmaður Liverpool var sjö ára gamall.

Takumi Minamino verður formlega nýr leikmaður Liverpool á Nýársdag þegar glugginn opnar en Japaninn er þegar kominn með númer og hefur gengið frá samningi sínum við enska félagið.

Enskir miðlar hafa verið að afla sér upplýsinga um þennan nýja leikmann Evrópumeistaranna sem eru einnig með tíu stiga forystu á toppi ensku úrvalsdeildarinnar og geta orðið heimsmeistarar félagsliða um helgina.



Takumi Minamino er 24 ára gamall og hefur spilað undanfarin sex ár með austurríska félaginu Red Bull Salzburg.

Minamino kom til Salzburg frá Cerezo Osaka skömmu fyrir tvítugafmælið sitt og hefur skorað 64 mörk í 189 leikjum síðan þar af 2 mörk í 6 Meistaradeildarleikjum í vetur.



Á fimm fyrstu tímabilum sínum með Red Bull Salzburg þá varð Minamino fimm sinnum austurrískur meistari og fjórum sinnum austurrískur bikarmeistari.

Það er líklegt að hann endi sem tvöfaldur landsmeistari á þessu tímabili því hann er að fara í lið sem er með tíu stiga forskot á toppi ensku úrvalsdeildarinnar og úr liði sem er á toppnum í Austurríki.



Í úttekt breska ríkisútvarpsins á ferli og ævi Takumi Minamino kemur í ljós að átrúnaðargoðið hans var brasilíski knattspyrnumaðurinn Ronaldo, ekki Cristiano Ronaldo heldur hinn upprunalegi Ronaldo.

Minamino var sjö ára gamall þegar Ronaldo fór mikinn á heimsmeistaramótinu í Japan og Suður Kóreu en Ronaldo var þá markakóngur keppninnar með átta mörk og skoraði meðal annars tvö mörk í sigri Brasilíu í úrslitaleiknum.

Takumi Minamino horfði stanslaust á myndbönd með Ronaldo og fór síðan út til að æfa sig. Það er þarf því ekki að koma á óvart þegar menn sjá takta Ronaldo í leik Takumi Minamino.

Eldri bróðir Takumi Minamino, Kenta, hafði einnig mikil áhrif á hann. Það má finna úttekt BBC með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×