Innlent

Hafa þrisvar lokað vegna veggjalúsa

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar

Sex hundruð hælisleitendur dvelja nú hér á landi í úrræðum á vegum Útlendingastofnunar og sveitarfélaga. Eitt af þeim var tekið í notkun á ný í dag eftir viðmiklar endurbætur. Ráðist var í þær eftir að veggjalýs fundust þar í þriðja sinn.

Síðasta vor þurfti að loka húsnæði Útlendingastofnunar í Bæjarhrauni í Hafnarfirði þar sem veggjalýs fundust þar. „Við byrjuðum á því að rífa öll gólfefni af húsinu. Henda öllum húsgögnum. Svo var fryst það sem var hægt að frysta og eitrað í framhaldinu og svo allt byggt upp á nýtt bara,“ segir Davíð Jón Kristjánsson verkefnastjóri hjá Útlendingastofnun.

Davíð heldur að með þessu sé hægt að koma í veg fyrir að veggjalýs verði aftur til vandræða í húsinu. Veggjalýsnar hafa borist með farangri fólks en þetta var í þriðja sinn sem þær urðu til þess að starfsemi í húsinu var tímabundið hætt. „Við fórum í sömu aðgerðir á öðru húsnæði hjá okkur fyrir einu og hálfu ári síðan og það hefur borið árangur,“ segir Davíð.

Kristín María Gunnarsdóttir sviðstjóri á verndarsviði Útlendingastofnunar.Vísir/Baldur

Húsið hefur hefur hýst umsækjendur um alþjóðlega vernd sem komið hafa hingað til lands og geta allt að níutíu manns dvalið þar í einu. „Hérna kemur fólk sem að búið er að sækja um vernd og kemur sem sagt beint hingað og getur búið hérna allavega til að byrja með eftir að það kemur til landsins,“ segir Kristín María Gunnarsdóttir sviðstjóri á verndarsviði Útlendingastofnunar.

Á fyrstu ellefu mánuðum ársins sóttu 774 einstaklingar um að fá alþjóðlega vernd á Íslandi en að er svipaður fjöldi og í fyrra. „Við reynum að hafa fólk hérna ekki mjög lengi. Eftir ákveðinn tíma ef að málsmeðferðin verður, ef það liggur fyrir að hún verður löng þá fer það yfirleitt í úrræði á vegum sveitarfélaga sem að við erum með samninga við,“ segir Kristín.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×