Innlent

Stór hluti þeirra sem leitað hafa til Bjarkar­hlíðar glíma við fíkni­vanda

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Stór hluti þeirra sem leiti til Bjarkarhlíðar glími við fíkn sem afleiðingu af kynferðisofbeldi.
Stór hluti þeirra sem leiti til Bjarkarhlíðar glími við fíkn sem afleiðingu af kynferðisofbeldi. vísir/hanna

Stór hluti þeirra kvenna sem leitað hafa til Bjarkarhlíðar á árinu glíma við fíknivanda sem afleiðingu af kynferðis- eða heimilisofbeldi sem þær hafa orðið fyrir.

Frá og með áramótum bætist Rótin, félag kvenna með áfengis- og fíknivanda, við þá grasrótarhópa sem sinnt hafa ráðgjöf í Bjarkarhlíð.

557 manns leituðu í fyrsta sinn til Bjarkarhlíðar á árinu og hafa aldrei verið fleiri eins og greint var frá í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær.

Þá er ofbeldi í nánum samböndum að verða grófara að sögn Rögnu Bjargar Guðbrandsdóttur, verkefnastjóra Bjarkarhlíðar. Þá segir hún að konur sem orðið hafa fyrir kynferðisofbeldi glími oft við flókar afleiðingar þess, eins og til dæmis fíkn og hefur verið ákveðið að bregðast við því.

„Við erum svo heppin að Rótin, félag kvenna um fíknivanda og áföll, hefur bæst í hópinn og kemur hérna inn til tilraunastarfs í sex mánuði þar sem þær munu veita stuðning hér eins og aðrir grasrótarhópar sem veita hérna stuðning.“

Stór hluti þeirra sem leiti til Bjarkarhlíðar glími við fíkn sem afleiðingu af kynferðisofbeldi og segir Ragna Rótina vera mikilvæga viðbót við hópinn. „Af því að við erum að fá mikið af fólki sem er að klára meðferð og eru að koma hingað í kjölfarið af því. Fíknivandi er ein af stærstu afleiðingum ofbeldis.“

Frá áramótum verður starfsmaður á vegum Rótarinnar í Bjarkarhlíð með viðtöl og ráðgjöf einu sinni í viku. Fyrir eru fulltrúar frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, Kvennaathvarfinu, Stígamótum, Drekaslóðum og Kvennaráðgjöfinni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×