Enski boltinn

PSG sagt vera á eftir Pep Guardiola og Xavi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pep Guardiola og Xavi gætu sameinast á ný hjá Paris Saint-Germain.
Pep Guardiola og Xavi gætu sameinast á ný hjá Paris Saint-Germain. Getty/Pressefoto Ulmer

Pep Guardiola gæti verið á leiðinni í frönsku deildina ef marka má fréttir frá Frakklandi. Ónægja stjörnuleikmanna PSG með núverandi stjóra hefur aukið líkurnar á því að þjálfarastarf félagsins losni í sumar.

Le 10 Sport slær því upp að Paris Saint-Germain ætli að reyna að fá Pep Guardiola til að taka við liðinu.

Pep Guardiola myndi þá taka við starfi Thomas Tuchel sem hefur verið með Parísarliðið frá 2018.

Tvennt er talið ýta undir þetta. Stjörnuleikmenn PSG, Neymar og Kylian Mbappe, eru ekki ánægðir með Thomas Tuchel og þá hefur Pep Guardiola þann möguleika á að losna undan samningi sínum við Mancheser City í sumar.





Hinn 48 ára gamli Guardiola hefur sagt að hann væri opinn fyrir nýjum samningi við Manchester City en þessar fréttir frá París gætu breytt því.

Manchester City mætir Real Madrid í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar en það er eini titilinn sem Guardiola hefur ekki unnið með City. City vann fjóra bikara heima á Englandi fyrr á þessu ári.

Það fylgir fréttinni hjá Le 10 Sport að Pep Guardiola gæti mögulega fengið Xavi Hernandez sem aðstoðarmann sinn taki hann við Parísarliðinu.



Xavi Hernandez hefur verið að þjálfa í Katar eftir að hann hætti sem leikmaður en Xavi átti mörg af sínum bestu árum undir stjórn Guardiola hjá Barcelona.

Manchester City hefur unnið ensku deildina undanfarin tvö tímabil en liðið er nú fjórtán stigum á eftir toppliði Liverpool.

Forráðamenn Manchester City trúa því að Pep Guardiola muni klára sinn samning sem er til ársins 2021.

Guardiola tók við Manchester City sumarið 2016 og er því á sínu fjórða tímabili með liðið.

Hann hætti óvænt hjá Barcelona eftir fjögur ár, 2008-12, og hætti síðan eftir þrjú ár hjá Bayern München, 2013-16. Það þykir auka líkurnar á brottför Guardiola að hann hafi aldrei verið lengur en fjögur tímabil með sama lið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×