Innlent

Sameining rædd á íbúafundi

Kristinn Haukur Guðnason skrifar
Langidalur í Húnavatnshreppi.
Langidalur í Húnavatnshreppi. Fréttablaðið/Stefán
Sameining sveitarfélaga verður rædd á íbúafundi í Húnavatnsskóla í Húnavatnshreppi næstkomandi fimmtudag. Miðað við boðaða löggjöf Sigurðar Inga Jóhannssonar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, verður lágmarksíbúafjöldi settur á í þrepum. 250 fyrir kosningarnar árið 2022 og 1.000 árið 2026.

„Á fundinum verður púlsinn tekinn og vilji íbúanna kannaður,“ segir Jón Gíslason, oddviti hreppsins, en á fundinum verður einnig rætt um áherslur sveitarstjórnar og fjárhagsáætlun.

Sameiningarmál voru í deiglunni á Norðurlandi vestra fyrir tveimur árum en þá var ekki vilji fyrir stórri sameiningu sveitarfélaga í Húnavatnssýslu og Skagafirði. Síðan þá hefur verið horft til sameiningar fjögurra sveitarfélaga í Austur-Húnavatnssýslu. Blönduóss, Skagastrandar, Skagabyggðar og Húnavatnshrepps.

„Sameiningarnefnd fyrir AusturHúnavatnssýslu er enn þá til en við tókum hlé á meðan þessi mál voru að skýrast. Við stefnum á að koma saman aftur 5. desember,“ segir Jón. „Skagabyggð er eina sveitarfélagið af þessum fjórum sem er undir 250 íbúa markinu og það kann að flækja stöðuna og viðræðurnar. Það verður nokkur lýðræðishalli, ef lögin ganga í gegn, og eitt sveitarfélagið verður að sameinast fyrr en hin.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×