Lífið

Guð, eru mömmur til?

Þórarinn Þórarinsson skrifar
Hulda Fríða Berndsen og Mikael Torfason.
Hulda Fríða Berndsen og Mikael Torfason.
Sársauki og reiði lituðu lengi samband mæðginanna Huldu Fríðu Berndsen og Mikaels Torfasonar. Bæði horfðu þau upp á feður sína drekka sig í hel og það var ekki fyrr en Hulda braut múra meðvirkninnar, laus undan oki Jehóva, að Mikael fann mömmuna sem hann hafði leitað í áratugi og skrifaði henni 200 blaðsíðna bréf..

„Nú hef ég loksins lokið við þessa bók, mamma. Hún er langt bréf til þín. Takk fyrir að deila sögu þinni með mér og okkur öllum. Við höfum svo oft farist á mis og lengi vorum við ekki til staðar hvort fyrir annað. Að fá að kynnast þér upp á nýtt og læra að elska þig nákvæmlega eins og þú ert hefur verið ótrúlegt ferðalag.“

Þannig ávarpar rithöfundurinn og leikskáldið Mikael Torfason mömmuna sem var honum lengi týnd, Huldu Fríðu Berndsen, í bókinni Bréf til mömmu. Þar gerir hann upp eitrað mæðginasamband í sársaukafullri sögu sem fær þó fallegan endi þegar skeggjaða barnið finnur mömmu sína.

„Þetta er bókin sem ég var að skrifa þegar pabbi kemur gulur heim frá Taílandi og deyr bara á fimm vikum,“ segir Mikael um senuþjóf eilífðarinnar, Torfa Geirmundsson, og bréfið til Huldu. Bók sem kemur í kjölfar Týnd í Paradís, frá 2015, og Syndafallið, sem kom út 2017, en ekki á milli þeirra þar sem rakarinn sjarmerandi á Hárhorninu sem „yfirtók bara þá bók,“ þegar hann eyðilagði í sér lifrina með leynidrykkju.

Mæðginin sitja saman yfir svörtu kaffi við eldhúsborðið heima hjá Huldu en Mikki er í stuttri Íslandsheimsókn til þess að fylgja bókinni úr hlaði en þau Elma Stefanía Ágústsdóttir hafa búið erlendis í rúmt ár. Fyrst í Berlín en þaðan fluttu þau til Vínar í sumar þegar Elma var fastráðin við hið virta Burgtheater.

„Hjartað í mér bara bráðnaði þegar hann hringdi í mig og sagði mér að hann væri búinn að skrifa bók, bréf til mín, bréf til mömmu. Ég man að ég sat hérna í stiganum og hann segir: „Mamma mig langar að senda þér þetta bréf og ég sagði honum að gera það.“

Hulda Fríða Berndsen og Mikael Torfason

Átakanlegur lestur

Langt bréfið barst frá Vín til Reykjavíkur á augabragði og Hulda byrjaði átakanlegan lesturinn samstundis. „Ég settist niður bara í náttfötunum og las bréfið og bað Mikael síðan um að hitta mig á Skype enda margt sem ég þurfti að ræða.

Það er svo margt sem kemur fram í þessari bók sem ég bara vissi ekki og er rosalega sorglegt fyrir mig sem mömmu að lesa. Það var bara átakanlegt vegna þess að ég hef alltaf viljað vera til staðar og ég hef reynt eins og ég get að vera það.“

Hulda bendir á að hún hafi við lesturinn komist að því að Mikael lenti í klóm barnaníðings á unglingsárunum. „Þegar Mikki segir frá þessu í bókinni, bréfinu, sem hann er að skrifa til mín. Orðlaus. Ég bara Jeminn eini! Hann var beittur kynferðislegu ofbeldi.

Auðvitað fór ég að gráta. Skilurðu. Ég vissi ekki af þessu. Ég bara vissi þetta ekki. Mamma getur ekki vitað allt. Mömmur hafa ekkert rétt á að vita allt. Ég vil ekkert vita allt. Þessi saga er bara dásamleg fyrir mig en hún er sár. En ég … vil vera til staðar og ég er til staðar og ég elska þessi börn mín svo skilyrðislaust,“ segir Hulda en kemst ekki lengra:

„Það er voðalega erfitt að vilja ekki vita allt og sitja uppi með mig sem son,“ skýtur Mikki inn í og skellihlær.

 

Svikin alkabörn

Bréf til mömmu kemur í kjölfar bókanna Týnd í paradís og Syndafallið þar sem Mikael byrjaði að brjóta samband sitt við foreldra sína til mergjar af þeirri einurð og festu sem segja má að hafi einkennt öll hans verk og störf. Og hlífir hvorki sjálfum sér né foreldrunum sem óhjákvæmilega lögðu syninum til eitthvað af vopnunum og efni í múrana sem hann hefur varið sig með í gegnum árin.

„Við höfum bæði horft á pabba okkar drekka sig í hel,“ segir Mikael um rætur meðvirkninnar sem Hulda segir hafa eitrað samband mæðginanna. „Já, við erum bæði búin að horfa á það og mér fannst rosalega sársaukafullt að horfa á börnin mín ganga í gegnum það sama og ég,“ segir Hulda sem missti föður sinn úr ofneyslu fimmtán ára gömul.

„Nú var ég á hliðarlínunni og gat ekkert gert. Ég gat ekki stigið inn í sorgina þeirra þótt mér hafi auðvitað þótt vænt um þennan mann og allt það, pabba þeirra, skilurðu? Ég gat ekkert gert og það var ekki pláss þannig og ég ber virðingu fyrir því. Ég upplifði samt pínu höfnun og leið dálítið illa.“ Hulda leggur áherslu á að þessar tilfinningar séu hreint ekkert óeðlilegar, „af því að ég átti þessi börn með honum en nú á ég bara annað líf og er hamingjusamlega gift öðrum manni.“

„Er hann bara trylltur?“

Mæðginin Hulda Fríða Berndsen og Mikael Torfason hafa ýmsa hildina háð, ýmist sundruð eða sameinuð, en standa nú sterk saman og eru bestu vinir. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari
Hulda segist ekki hafa farið að skoða líf sitt og sambandið við Mikael almennilega fyrr en hann flytur til útlanda fyrir rúmu ári. „Af því að ég varð rosalega veik. Ofboðslega veik eftir fyrstu bókina sem hann skrifaði um okkur,“ segir Hulda um bókina Týnd í Paradís og áfallið sem bókin var henni.

„Hvað er að gerast? Hvað er að gerast? Er barnið bara?… Er hann bara trylltur?“ spyr Hulda á háu nótunum þegar hún lýsir geðshræringunni sem fyrsta fjölskylduuppgjör Mikaels hafði á hana fyrir þremur árum. „Ég er í rauninni að vinna svolítið úr þessu núna. Svona síðasta eitt og hálft ár, eftir að hann fer út, og ég fer svona að passa það að bera virðingu fyrir honum sem fullorðnum manni. Ég skildi hann alltaf sem barn en ég gat ekki skilið hann sem fullorðinn mann. Og ég fór kannski oft yfir mörkin hans.“

Guð, eru mömmur til?

„Mamma fékk samt fyrsta taugaáfallið þegar ég gaf út fyrstu ljóðabókina, Guð eru mömmur til? Hræðileg bók,“ segir Mikael og hlær. Hann var sextán ára þegar hann gaf þessa frumraun sína út í ljósriti með ljóðum sem hétu Ókunnug kona og Djöflamamma, svo eitthvað sér nefnt.



„Ég skil samt að hann upplifir höfnun. Ég ber svo mikla virðingu fyrir því þegar hann er barn og unglingur,“ segir Hulda en í huga Mikaels hefst bréfið til hennar í raun þegar hann er að kominn til smá vits og fimm ára og leiðir skilur þegar lögheimili hans er skráð hjá föður hans.

„Og þessi ljóðabók,“ heldur Hulda, sem las hana upphátt fyrir sálfræðinginn sinn hágrátandi, áfram. „Ég ber svo mikla virðingu fyrir þessu í dag. Ég kunni það ekki áður af því að ég sjálf var bara veik, leið illa og var í tilfinningalegum rússíbana með tilfinningar mínar til hans. Á ég að hringja? Á ég að fara? Hvernig á ég að tækla þetta?“

Hulda og Mikael eru sammála um að landfræðileg fjarlægðin og stafræn samskipti hafi auðveldað þeim að greiða úr sálarflækjum sínum og finna hvort annað.

„Sko, ég sé það núna, eftir að Mikki flutti út, að þá gerðist eitthvað. Við höfum sem betur fer náttúrlega alltaf verið að vinna í okkur. Annars værum við ekki þær manneskjur sem við erum í dag en það sem gerist er að ég fer að vinna í meðvirkni gagnvart honum,“ segir Hulda um ógeðslegt andlegt eitrið sem mengar líf allra alkabarna.

Mausað í markaleysi

 

„Ég fann að hann hafði ekki þol fyrir þessu og ég fór að bera meiri virðingu fyrir mörkunum sem hann var reyna að setja mér,“ segir Hulda þegar sonurinn truflar hana. „Þetta er eins og að vera í fjölskylduráðgjöf að vera hérna?…“ segir hann en kemst ekki lengra þar sem Hulda er rétt að byrja:



„Í alvöru. Þetta er bara þannig. Ég hefði aldrei getað gert þetta ein. Ég þurfti að fá hjálp til þess og hef verið með frábæran sálfræðing,“ segir Hulda og eys Birgi Örn Steinarsson, löngum þekktan sem Bigga í Maus, lofi. „Hann er alveg dásamlegur og er líka svona eins og skeggjaður sonur minn. Hann hefur eiginlega bara gert undur og stórmerki og hefur kennt mér að bera virðingu fyrir mörkum Mikka.“

„Mamma er í sálfræðitímum hjá Birgi Erni Steinarssyni, fyrrverandi blaðamanni Fréttablaðsins, og við erum í fjölskylduráðgjöf hjá Þórarni Þórarinssyni, blaðamanni á Fréttablaðinu,“ segir Mikki og hlær að helst til óvæntri aðkomu tveggja fyrrverandi undirmanna hans að fjölskyldudramanu sem fengið hefur farsæla lausn.

„Okkar ástarsamband hefur alltaf verið svolítil teygja. Stundum náið en síðan kemur alltaf fjarlægð. Eitthvert rof. Þetta er bara beyglað mynstur okkar á milli sem við ein getum lagað,“ segir Hulda.

Mikael bætir við að það hafi fleira í sambandi þeirra verið flókið en þau tvö. „Þarna voru líka Vottar Jehóva, mamma í sértrúarsöfnuði og svona sem ég fjalla líka um í bókinni. Þetta er rosalega flókið þegar annar aðilinn í svona mæðginasambandi er einhvern veginn að bíða eftir heimsendi.“

Eitruð ást

 

„Ég held að okkur hafi báðum tekist að skilja að samband okkar, móður og sonar, hafi verið svona „toxic relationship“, segir Mikael og fullyrðir að allir sem reynt hafi viti, óháð hvers konar ástarsambandi þeir voru í, að eituráhrifin eru ósýnileg þangað til stigið er út úr eitraða sambandinu.

„Þangað til er fólk bara í tunnunni með öllu eitrinu. Hvort sem það er móðir og sonur eða fólk sem er í sambandi við maka og heldur að allt sé rosa fínt þótt andrúmsloftið sé í raun geislavirkt,“ segir Mikael og bætir við að það séu ánægjustundirnar inni á milli sem slái fólk þessari blindu.

„Samband okkar var svona „toxic“ en var auðvitað gott líka. Við áttum góðar stundir,“ segir Mikael og Hulda tekur undir: „Yndislegar. Dásamlegar,“ og Mikael minnir á að merking þrífst á andstæðu sinni: „Síðan áttum við fáránlegar stundir. Ég man að þegar ég var unglingur þá var þetta náttúrlega bara?… En ég held að maður geti ekki skrifað um það eða skilið það nema maður sé búinn að stíga út úr því. Þá sér maður?…“ Lengra kemst hann ekki þar sem mamma grípur orðið og lokar málinu: „Það er alveg rétt. Ég er sammála því.“

Dásamlegt uppgjör

 

Varla þarf að fjölyrða um að það er ekki andlegum heiglum hent að gera upp erfið sambönd og tilfinningar fyrir augum allra sem horfa vilja. Hulda segist hins vegar vera komin á þann stað í lífinu að hún fagni innilega frásögn Mikaels af leitinni að týndu mömmunni í bréfi sem er stílað á hana.

„Ég veit að bókin er bréf til mín og mér finnst það dásamlegt,“ segir Hulda bætir við að hún hafi ekki reiðst þegar Mikael sagði henni frá bréfinu, þótt hún hafi verið búin að frábiðja sér fleiri bækur um fjölskylduna. „Ég var búin að segja við Mikka að ég væri ekki tilbúin í fleiri partí,“ segir Hulda.

Hulda Fríða Berndsen og Mikael Torfason
„Meiri bækur,“ útskýrir Mikael áður en mamma hans heldur áfram: „Og ég fann að þetta var vont fyrir hann. Eða ég upplifði það þannig og það var erfitt fyrir mig líka að setja honum þessi mörk af því að ég hef alltaf verið tilbúin til þess að vera með honum í einhverju geimi.

Svo hringir hann í mig og ég vissi það. Inni í mér. Í hjartanu að hann var að skrifa bók. Hann sagði það ekki en ég vissi það. Það eru einhver tengsl þarna á milli mín og hans sem er bara mjög erfitt fyrir fólk að skilja og ég ætlast ekki til þess.“

Sektarkennd dauðans

Hulda segir að þegar hún hafi verið með börnin hafi meðvirknin skrúfast í botn. Hún hafi nánast kæft strákana sína með ást, umhyggju og ofverndun sem Mikki segir þá bræður hafa markvisst reynt að snúa upp í leiðindi og læti.

„Ég var alltaf með sektarkennd dauðans og ég bara tók mig og lamdi mig niður. Þú ert ljót, þú ert vond, þú átt ekki tilverurétt, þú ert bara ógeðsleg kona, hvernig gastu látið börnin þín frá þér? Hvernig gastu verið svona vond? Ég bara tek þessa 28 ára ungu konu og bara lem hana niður í svona brjálæðislegum tilfinningum. Ég fæ sko gæsahúð þegar ég tala um þetta.

Ég vissi ekkert hvar ég var stödd. Fékk enga aðstoð, enga hjálp. Ekkert. Og ég hætti sem vottur og fékk enga aðstoð þar og bara stóð uppi ein. Með allar mínar tilfinningar sem ég réð ekkert við og vissi ekkert hvað þær væru.

Þegar ég hugsa til baka, sem 67 ára gömul kona, í dag þá var þessi 28 ára kona svolítið að hefna sín á manninum sem hún var gift. Sem er rosalega sárt,“ segir Hulda um tilfinningalegu blindgötuna sem þau Mikki villtust niður eftir að þau Torfi skildu. „Ég var búin að vera heima með krakkana mína þrjá. Hugsa um þau, hræra í kókómaltinu, bursta skóna þeirra?…“

„Þú varst náttúrlega húsmóðir í Vottum Jehóva,“ skýtur Mikael inn í og bendir á að hún hafi þannig verið undirokuð af feðraveldinu af fullum þunga.

„Þú ert æðisleg mamma“

„Ég var bara alveg súpermamma en svo bara gerist það, og það er ekkert svo langt síðan, að ég fer að átta mig á að þessi 28 ára kona var bara rosalega týnd og leið bara ofboðslega illa.

Ég vissi ekkert hvernig ég átti að höndla það en Biggi hefur hjálpað mér með það. Hann benti mér á í sálfræðitímum hjá honum að það væri gegnumgangandi í samtölum okkar að ég talaði um það þegar ég yfirgaf strákana mína. Hann spurði mig síðan hvenær það hafi verið sem ég yfirgaf þá og ég sagði: „Þegar ég lét þá frá mér.“

Þá segir hann: „Nei, þú hefur aldrei yfirgefið þá. Þú hefur alltaf verið til staðar. Og ég fór út frá honum eins og?… Ég get ekki lýst því. Þetta var svo ógeðslega góð tilfinning, ástartilfinning, og ég fór og keypti blóm. Stóran blómvönd handa þessari 28 ára gömlu konu og sagði: „Þú ert æðisleg mamma, ég er að kaupa þessi blóm handa þér. Þú ert 28 ára. Þú ert æðisleg mamma.“ Þetta var eins og að fá frelsi. Ég hafði aldrei áður getað fyrirgefið þessari konu. Ég kunni það ekki.“

Mæðginin hafa hér rétt gárað yfirborðið þess tilfinningalega hyldýpis sem þau spyrntu sér upp úr hvort í sínu lagi með þeim árangri að við eldhúsborðið í Heiðargerði sitja þau í dag sem svo góðir vinir að Mikael finnur ekki lengur hjá sér þörf til þess að flýja af Facebook þegar mamma gengur þar ljósum logum.

 

Góðir Facebook-vinir

„Ég þoldi þetta ekki fyrst. Það er ekki eins og ég sé algerlega heilbrigður sko. Ég var að reyna að vera rosalega gáfulegur og tala um pólitík og mamma alltaf bara sú fyrsta sem kom strax með fjörutíu hjörtu. Ég elska þig!“

Hulda skellir upp úr: „Svo var ég tilbúin að segja frá mínum veikindum og hver ég var og hver ég var ekki.“

„Allir þurfa einhvern tímann að ganga í gegnum það að vera vandræðalegir í kringum mömmu sína en einhvern tímann þarf þetta að hætta. Það getur vel verið að ég hafi verið óvenju lengi hræddur við mömmu vegna bakgrunns míns og sögu okkar. En núna sér mamma um upplestra og kynningar á bókinni á meðan ég sinni börnum í Vín. Þannig að við erum ekki hrædd við hvort annað lengur,“ segir rithöfundurinn sem lofar, heldur ósannfærandi, að skrifa ekki fleiri bækur um fjölskylduna. „Mamma er nú þannig að hver dagur með henni er ný saga. Önnur bók.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×