Innlent

Látinn fjúka og lét greipar sópa heima hjá sam­starfs­mönnum

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Maðurinn var handtekinn á Keflavíkurflugvelli.
Maðurinn var handtekinn á Keflavíkurflugvelli. Vísir/Jói K.
Lögreglan á Suðurnesjum handtók í vikunni mann á Keflavíkurflugvelli sem var á leið úr landi með þýfi, sem hann reyndist hafa stolið af fyrrverandi samstarfsmönnum sínum á höfuðborgarsvæðinu fyrr um daginn.

Málið er rakið í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Þar segir að morgunn einn í vikunni hafi lögregla verið kölluð að heimili í austurbæ vegna innbrots. Þar hafði tölvum, tækjum og öðrum verðmætum verið stolið af húsráðendum, sem eru erlendir verkamenn.

Rannsóknarlögreglumaður sem fór með málið komst fljótlega að því að samstarfsmaður íbúa hefði verið rekinn úr starfi fyrr sama dag. Hann hefði enn fremur, að öllum líkindum, pantað flug úr landi um kvöldið.

Í kjöflarið var haft samband við embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum og óskað eftir því að maðurinn yrði stöðvaður á leið sinni í gegnum flugvöllinn. Það var gert og við nánari athugun reyndust skór hans passa við fótspor sem fannst á vettvangi.

„Eftirleikurinn var auðveldur, maðurinn var handtekinn og allt þýfið úr innbrotinu fannst í farangri hans. Málið er á lokastigum rannsóknar,“ segir í tilkynningu lögreglu á höfuðborgarsvæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×