Eins og komið hefur fram í fjölmiðlum urðu mistök við fjárfestingaáætlun og hærri framkvæmdakostnaður til þess að Björn Halldórsson, framkvæmdastjóri Sorpu, lagði til að 1,4 milljarðar króna yrðu bætt við fjárhagsáætlun Sorpu til næstu fjögurra ára.
Lánasjóður sveitarfélaga hefur samþykkt að lána Sorpu 990 milljónir til að ljúka við framkvæmdir við nýja gas- og jarðgerðarstöð í Álfsnesi.
Að mati stjórnarinnar er mikilvægt að greina annars vegar hvað leiddi til þeirra mistaka sem voru gerð við framsetningu og samþykkt fjárhagsáætlun ársins 2019 og hins vegar hvað hafi orsakað frávik á áætluðum framkvæmdakostnaði við gas- og jarðgerðarstöðina.

„Áhersla er lögð á stjórnarhætti SORPU með það í huga að alvarleg mistök voru gerð sem hafa haft umtalsverð áhrif á sjóðstreymi félagsins og fjárstýringu. Í því sambandi er talið mikilvægt að skoða umgjörð og stjórnarhætti Sorpu bs. með áherslu á áætlunargerð og ákvörðunartöku vegna fjárfestingar í gas- og jarðgerðarstöð. Þá er jafnframt lögð áhersla á að rýna þær úttektir sem áður hafa verið gerðar á eftirlitsumhverfi Sorpu bs. með það fyrir augum að draga saman umfjöllun á einum stað um félagsform og rekstrarforsendur á bak við ákvarðanir.“
Skoðað verður hvernig útdeilingu valds og ábyrgðar er háttað og lagt mat á hvernig stjórn sinnir innra eftirliti. Í því sambandi verður skoðað hvernig upplýsingagjöf framkvæmdastjóra til stjórnar hefur verið. Markmiðið er að kanna fylgni við settar stefnur og verklagsreglur.