Lífið

Mættur á sviðið um 50 mínútum eftir að hafa verið hleypt úr vélinni

Atli Ísleifsson skrifar
Guðmundur Ingi segir að félagar hans í leikhópnum hafi verið miklu stressaðri yfir þessu en hann.
Guðmundur Ingi segir að félagar hans í leikhópnum hafi verið miklu stressaðri yfir þessu en hann. Vísir/Stefán
„Við byrjuðum hálftíma seinna en til stóð en þetta hafðist og gekk vel,“ segir leikarinn Guðmundur Ingi Þorvaldsson um sýningu á Húh! Best í heimi í Borgarleikhúsinu klukkan 20 í gærkvöldi.

Vegna óveðursins sem geisaði á landinu í gær var Guðmundur Ingi fastur í flugvél á Keflavíkurflugvelli í einhverja klukkutíma og var ekki hleypt út fyrr en 19:40, tuttugu mínútum áður en sýningin átti að hefjast.

„Ég er samt búinn að vera með óraunveruleikatilfinningu í allan dag. Eins og þetta hafi ekki gerst,“ segir Guðmundur.

Hann segir að leigubílaferðin í gærkvöldi hafi verið mjög góð. Bílstjórinn hafi keyrt eins hratt og mátti og skilað honum í Borgarleikhúsið. „Þetta var eiginlega ótrúlegt. Að komast út úr vélinni tuttugu mínútur í átta og ná að byrja hálf níu í Borgarleikhúsi. Það er nú eiginlega magnað.“

Úr Húh! Best í heimi, leiksýningu leikhópsins RaTaTam, sem sýnd er í Borgarleikhúsinu.Mynd/Steve Lorenz

Aðrir miklu stressaðri en hann

Guðmundur segir að félagar hans í leikhópnum hafi verið miklu stressaðri yfir þessu en hann. „Ég gat náttúrulega ekkert annað gert en að koma mér á áfangastað. Ég fór svo beint í jakkaföt og út á svið.“

Hann segist halda að áhorfendur hafi sýnt aðstæðunum fullan skilning. „ Það virtust alla vega allir glaðir í leikslok. Sýningin gekk vel, svo er önnur sýning í kvöld og aftur á morgun. Áfram á galeiðunni!“

Guðmundur var staddur baksviðs þegar fréttastofa náði tali af honum. „Það eru líka allir mættir vel fyrir sýningu í kvöld. Það er líka verið að frumsýna Sex í sveit þannig að það er allt verða vitlaust hérna baksviðs.“


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×