Lífið

Mættur á sviðið um 50 mínútum eftir að hafa verið hleypt úr vélinni

Atli Ísleifsson skrifar
Guðmundur Ingi segir að félagar hans í leikhópnum hafi verið miklu stressaðri yfir þessu en hann.
Guðmundur Ingi segir að félagar hans í leikhópnum hafi verið miklu stressaðri yfir þessu en hann. Vísir/Stefán

„Við byrjuðum hálftíma seinna en til stóð en þetta hafðist og gekk vel,“ segir leikarinn Guðmundur Ingi Þorvaldsson um sýningu á Húh! Best í heimi í Borgarleikhúsinu klukkan 20 í gærkvöldi.

Vegna óveðursins sem geisaði á landinu í gær var Guðmundur Ingi fastur í flugvél á Keflavíkurflugvelli í einhverja klukkutíma og var ekki hleypt út fyrr en 19:40, tuttugu mínútum áður en sýningin átti að hefjast.

„Ég er samt búinn að vera með óraunveruleikatilfinningu í allan dag. Eins og þetta hafi ekki gerst,“ segir Guðmundur.

Hann segir að leigubílaferðin í gærkvöldi hafi verið mjög góð. Bílstjórinn hafi keyrt eins hratt og mátti og skilað honum í Borgarleikhúsið. „Þetta var eiginlega ótrúlegt. Að komast út úr vélinni tuttugu mínútur í átta og ná að byrja hálf níu í Borgarleikhúsi. Það er nú eiginlega magnað.“

Úr Húh! Best í heimi, leiksýningu leikhópsins RaTaTam, sem sýnd er í Borgarleikhúsinu. Mynd/Steve Lorenz

Aðrir miklu stressaðri en hann

Guðmundur segir að félagar hans í leikhópnum hafi verið miklu stressaðri yfir þessu en hann. „Ég gat náttúrulega ekkert annað gert en að koma mér á áfangastað. Ég fór svo beint í jakkaföt og út á svið.“

Hann segist halda að áhorfendur hafi sýnt aðstæðunum fullan skilning. „ Það virtust alla vega allir glaðir í leikslok. Sýningin gekk vel, svo er önnur sýning í kvöld og aftur á morgun. Áfram á galeiðunni!“

Guðmundur var staddur baksviðs þegar fréttastofa náði tali af honum. „Það eru líka allir mættir vel fyrir sýningu í kvöld. Það er líka verið að frumsýna Sex í sveit þannig að það er allt verða vitlaust hérna baksviðs.“


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.