Menning

Stefnumót

Kolbrún Bergþórsdóttir skrifar
"Það er gaman að stefna saman ólíkum einstaklingum með ólíkan uppruna,“ segir Daði.
"Það er gaman að stefna saman ólíkum einstaklingum með ólíkan uppruna,“ segir Daði. Fréttablaðið/Ernir
Undur er sýning í Galleríi Fold og þar sýna saman verk sín hin bandaríska Lulu Yee og Daði Guðbjörnsson. „Forsvarsmenn gallerísins stungu upp á þessari sýningu,“ segir Daði. „Lulu hefur verið viðloðandi Ísland og er gift íslenskum manni. Hún er hluti af íslensku listasenunni, mjög yndisleg manneskja.“

Lulu, sem var horfin af landi brott þegar viðtalið var tekið, sýnir fígúrur úr leir og Daði sýnir vatnslitamyndir. „Leirinn er eitt það massaðasta sem hægt er að fást við og vatnslitir það léttasta en það er sannarlega ekki út í loftið að sýna þessi verk saman. Sýningargestir sjá samstundis að litapalletta okkar er skyld. Við vinnum þó mjög ólíkt og hugsunin á bak við verkin er ekki sú sama. Það er gaman að stefna saman ólíkum einstaklingum með ólíkan uppruna,“ segir Daði.

Hann segist hafa farið í smá samtal við verk Lulu. „Margar mynda minna á þessari sýningu eru eins og hús, landslag eða stemning sem hentar verum eins og hún skapar. Þetta sést í sjálfu sér ekki á verkunum en þegar ég var að vinna þau þá var ég að hugsa um hvernig umhverfi verur eins og hennar gætu hugsað sér að vera í.“

Daði segist ekki hafa sýnt vatnslitamyndir í nokkurn tíma. „Öðru hvoru gríp ég í vatnslitina en í allt sumar gerði ég vatnslitamyndir og það var óskaplega gaman. Það er ákveðið hugarfar og lýrík í vatnslitunum, maður verður massaðri í olíunni. Vatnið tekur líka dálítið völdin af manni, myndirnar fara allt í einu að flæða í einhverja átt sem maður vissi ekki af.“

Nokkrar mynda hans á sýningunni er af höndum og fingrum. „Ég hef verið að velta fyrir mér þeim galdri sem felst í tengingu augans og fingranna. Fingragerðin hefur örugglega áhrif á það hvernig myndlist maður gerir.“

Sýningin í Galleríi Fold stendur til 14. október. Daði segist hafa fengið góð viðbrögð við henni. „Fólk er hrifið af þeirri heild sem hefur skapast á sýningunni og hefur orð á því að verkin passi vel saman.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×