Jón Finnbogason, dómari við Landsrétt, hefur óskað eftir launuðu leyfi og verður nýr settur í hans stað. Jón er einn þeirra fjögurra dómara sem ekki hefur sinnt dómstörfum eftir dóm Mannréttindadómstóls Evrópu.
Fjallað var um málið í kvöldfréttum RÚV en í síðasta mánuði ákvað stjórn Dómstólasýslunnar að athuga hvort dómararnir fjórir myndu óska eftir launuðu leyfi til áramóta, þvert á atkvæði forseta réttarins. Hinir þrír dómararnir, Arnfríður Einarsdóttir, Ásmundur Helgason og Ragnheiður Bragadóttir óskuðu ekki eftir launuðu leyfi.
Fyrr í mánuðinum var greint frá því að áætlað væri að óafgreidd áfrýjuð mál yrðu samtals 482 um áramótin. Málsmeðferðartími héldi áfram að lengjast þar sem rétturinn væri ekki fullskipaður eftir dóm Mannréttindadómstólsins.
Sjá einnig: Málsmeðferðartími í Landsrétti heldur áfram að lengjast
Til þess að fjölga dómurum við Landsrétt þarf lagabreytingu en færu dómararnir í launað leyfi væri hægt að komast hjá því að breyta lögunum. Dómararnir þyrftu að óska eftir leyfinu sjálfu.
Ferlið við að skipa dómara í stað Jóns mun taka nokkrar vikur og má vænta þess að það verði í fyrsta lagi ljóst í ágúst hver tekur tímabundið við. Landsréttur þarf að óska eftir því að nýr dómari verði settur, hæfnisnefnd þar svo að finna dómara og gera tillögu til dómsmálaráðherra.
