Innlent

Tveir hinna dæmdu í Pól­stjörnu­máli sagðir grunaðir í nýju fíkni­efna­máli

Atli Ísleifsson skrifar
Mennirnir veittu talsverða mótspyrnu við handtöku og slógust við lögreglumenn.
Mennirnir veittu talsverða mótspyrnu við handtöku og slógust við lögreglumenn. Vísir/Vilhelm
Tveir af þeim fjórum sem nýlega voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald í tengslum við rannsókn lögreglu á skipulagðri glæpastarfsemi, hlutu dóma í Pólstjörnumálinu svokallaða fyrir rúmum áratug.

Þetta kom fram í fréttum RÚV í kvöld. Þar segir að mennirnir sem um ræðir séu þeir Einar Jökull Einarsson, sem hlaut níu og hálfs árs dóm í Pólstjörnumálinu, og Alvar Óskarsson sem hlaut sjö ára dóm.

Greint var frá handtökunum um liðna helgi þar sem segir að fjórir hafi verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald til 21. júní á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Alls voru sjö manns handteknir en ráðist var í níu húsleitir. Rannsókn lögreglu snýr að framleiðslu fíkniefna og peningaþvætti.

Alls voru sex manns ákærðir í Pólstjörnumálinu á sínum tíma. Lögregla gerði fíkniefni upptæk í skútunni Pólstjörnunni sem lagði að bryggju í Fáskrúðsfjarðarhöfn að morgni fimmtudagsins 20. september 2007. Þar var reynt að smygla 23,6 kíló af amfetamíni, 13,9 kíló af e-töfludufti og 1.746 e-töflur til landsins frá Danmörku og með viðkomu á Hjaltlandseyjum og Færeyjum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×