Erlent

Grunaður um manndráp í tengslum við flugslys Sala

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Sala var minnst á heimaleik Cardiff City í febrúar.
Sala var minnst á heimaleik Cardiff City í febrúar. Vísir/getty
Breska lögreglan handtók í dag karlmann vegna gruns um manndráp í tengslum við andlát argentínska knattspyrnumannsins Emiliano Sala. Sala fórst í flugslysi yfir Ermarsundi í janúar síðastliðnum en hann var á leið til Bretlands eftir að hafa skrifað undir samning við velska knattspyrnuliðið Cardiff City.

Í frétt BBC segir að karlmaður á sjötugsaldri hafi verið handtekinn í tengslum við málið í Norður-Yorkshire í dag. Honum hafi þó verið sleppt úr haldi en rannsókn á málinu haldi áfram. Þá hafi fjölskyldur Sala og Davids Ibbotson, flugmanns vélarinnar sem fórst einnig í slysinu, verið látnar vita af handtöku mannsins.

BBC hefur eftir talsmanni lögreglu að rannsóknin beinist m.a. að því að finna út hvort eitthvað saknæmt hafi átt sér stað. Sá hluti rannsóknarinnar hafi leitt til handtöku mannsins vegna gruns um manndráp. Ekki er ljóst á hverju sá grunur er byggður og þá hefur ekki verið gefið út hvað maðurinn er grunaður um að hafa gert.

Sala var á ferð frá Nantes í Frakklandi til Cardiff þann 21. janúar þegar flugvélin sem hann var í hrapaði yfir Ermarsundi. Lík hans fannst ásamt flaki flugvélarinnar í febrúar en lík Ibbotsons hefur enn ekki fundist.

Komið hefur í ljós að Ibbotson hafði aðeins leyfi til þess að fljúga í dagsbirtu. Upphaflega stóð til að hann myndi fljúga með Sala til Cardiff klukkan níu að morgni. Því var hins vegar frestað til klukkan 19:00 svo Sala gæti kvatt félaga sína í Nantes. Þá var klukkutími og tíu mínútur liðnar frá sólsetri.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×