Innlent

Akureyrarkaupstaður fær nýtt heiti

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Akureyri fær væntanlega nýtt formlegt nafn.
Akureyri fær væntanlega nýtt formlegt nafn. Fréttablaðið/Pjetur
Bæjarstjórn Akureyrar hefur samþykkt að breyta skuli heiti Akureyrarkaupstaðar í Akureyrarbæ. Samþykktin er gerð með fyrirvara um jákvæða umsögn örnefnanefndar og staðfestingu samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins.

Tillagan um að breyta heiti bæjarins úr Akureyrarkaupstað í Akureyrarbæ hefur verið til umræðu í bæjarkerfinu að undanförnu. Heitið Akureyrarbær hefur fest sig í sessi í daglegu tali á undanförnum árum og sjaldgæft að hið formlega nafn bæjarins, Akureyrarkaupstaður, heyrist nefnt.

Í febrúar samþykkti meirihluti bæjarstjórnar tillögu fulltrúa minnihlutans þess efnis að undirbúin yrði skoðanakönnun svo bæjarbúar gætu fengið tækifæri til þess að segja álit sitt á því að breyta heiti bæjarsins.

Á fundi bæjarstjórnar í gær var hins lögð fram tillaga um að að tekið yrði mið af niðurstöðum könnunar Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri þar sem meðal annars var spurt um heiti á sveitarfélaginu. 77 prósent þeirra sem tóku afstöðu vildu breyta heitinu í Akureyrarbær en 23 prósent vildu halda fyrra nafni.

Samþykkti bæjarstjórn einróma að heiti sveitarfélagsins úr Akureyrarkaupstaður í Akureyrarbær en það er sem fyrr segir gert með fyrirvara um með fyrirvara um jákvæða umsögn örnefnanefndar og staðfestingu samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins. Þegar nýtt heiti hefur verið staðfest af ráðuneytinu þarf að breyta samþykkt um stjórn sveitarfélagsins og tekur hið nýja heiti gildi við gildistöku hennar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×