Erlent

Bandaríkjastjórn vildi ekki taka þátt í átaki gegn öfgahyggju

Kjartan Kjartansson skrifar
Bandaríkjastjórn Trump forseta treysti sér ekki til að styðja alþjóðlegt átak gegn öfgahyggju á netinu.
Bandaríkjastjórn Trump forseta treysti sér ekki til að styðja alþjóðlegt átak gegn öfgahyggju á netinu. Vísir/Getty
Ríkisstjórn Donalds Trump Bandaríkjaforseta hafnaði því að styðja átak gegn öfgahyggju á netinu sem ríkisstjórn Nýja-Sjálands hefur frumkvæði að til að bregðast við hryðjuverkunum í Christchurch í vor. Bandaríkjastjórn vísar til tjáningarfrelsissjónarmiða.

Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands, og Emmanuel Macron, forseti Frakklands, kynntu Christchruch-ákallið gegn öfgahyggju á netinu í vikunni. Þau standa fyrir ráðstefnu um málefnið um helgina þar sem markmiðið er að samræma aðgerðir ríkisstjórna heims og tæknifyrirtækja til að koma í veg fyrir að samfélagsmiðlar séu notaðir til að ýta undir hryðjuverk eða hryðjuverkastarfsemi.

Facebook hefur þegar heitið því að gera breytingar á streymisþjónustu sinni Facebook Live í kjölfar fjöldamorðsins í Christchurch. Árásarmaðurinn, sem myrti fimmtíu og einn í tveimur moskum í borginni, sendi beint frá árásinni á Facebook Live.

Washington Post segir að Bandaríkjastjórn hafi hins vegar ekki treyst sér til að styðja Christchurch-ákallið vegna tjáningarfrelsissjónarmiða. Trump forseti ætlar heldur ekki að taka þátt í ráðstefnunni í París um helgina.

Í yfirlýsingu bandarískra stjórnvalda kom fram að þau styddu alþjóðasamfélagið í að fordæma hryðjuverk og ofbeldisfullt öfgaefni á netinu. Einnig styddu þau markmið verkefnisins um aðgerðir. Hvíta húsið væri aftur á móti ekki í „aðstöðu til að taka þátt í ákallinu“.

Að mati Bandaríkjastjórnar er besta leiðin til að vinna bug á tali hryðjuverkamanna „gagnleg orðræða“.

„Þannig leggjum við áherslu á mikilvægi þess að ýta undir aðrar trúverðugar frásagnir sem aðalleiðina til þess að við getum sigrast á skilaboðum hryðjuverkamanna,“ sagði í yfirlýsingunni.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.