Lífið

Hvað gerðist í flutningi Hatara?

Kolbeinn Tumi Daðason í Tel Aviv skrifar
Andrean, einn af dönsurum Hatara, heldur hér utan um Matthías Tryggva Haraldsson söngvara.
Andrean, einn af dönsurum Hatara, heldur hér utan um Matthías Tryggva Haraldsson söngvara. Nordicphotos/Getty

Hatari með lagið sitt Hatrið mun sigra hefur lokið við að flytja lagið sitt í Expo Tel Aviv höllinni. Atriðið var að stærstum hluta stórkostlegt á sviði en upp úr miðju lagi virtist ekki heyrast í Matthíasi Tryggva Haraldssyni, söngvara Hatara.

Tvær línur í flutningi Matthíasar heyrðust hreinlega ekki og eru uppi ólíkar kenningar um hvað hafi gerst. Hvort ísraelsku hljóðmennirnir hafi klikkað eða hvort stress hafi gert vart við sig hjá söngvaranum.

Á meðan þessum tveimur línum stóð var Matthías lítið í mynd og því ólíklegt að hinn almenni sjónvarpsáhorfandi í Evrópu hafi tekið eftir þessu. Hinn almenni blaðamaður í Tel Aviv virtist í það minnsta ekki taka eftir neinu.

Atriðið má sjá hér að neðan en lítið heyrist í Matthíasi í nokkrar sekúndur frá 1:36.

Í framhaldinu kom Klemens Hannigan inn með falsettuna sína og Hatari lauk laginu með miklum krafti. Matthías kom aftur inn eftir það með stæl og hefur endahnykkurinn líklega aldrei verið áhrifameiri. Hatari hlaut mikið lof í lokin frá bæði áhorfendum í sal og ekki síður í blaðamannahöllinni.

Fróðlegt verður að sjá hvort íslenska teymið geri kröfu um endurflutning á laginu. 

Hatari er sem stendur í áttunda sæti veðbanka yfir líklega sigurvegara.

Uppfært klukkan 21:05
Felix Bergsson, fararstjóri íslenska liðsins, kannaðist ekki við að nokkuð vandamál hefði verið með hljóðið þegar blaðamaður ræddi við hann símleiðis. 

Felix, sem staddur er baksviðs ásamt íslenska teyminu, ætlaði þó að athuga málið þegar hann heyrði að margir hefðu velt því fyrir sér.

Felix sagði Matthías aðeins hafa farið úr takti í tvær til þrjár línur en annars hefði flutningur Hatara verið hnökralaus. 
 
 Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.