Menning

Segir sólina skína á sviðinu þegar Jón Axel dansar

Atli Ísleifsson skrifar
Jón Axel Fransson á stóra sviðinu í Kaupmannahöfn.
Jón Axel Fransson á stóra sviðinu í Kaupmannahöfn. Konunglegi ballettinn/Henrik Stenberg

„Þegar hann dansar skín sólin á sviðinu,“ sagði Nikolaj Hübbe, listrænn stjórnandi Konunglega ballettsins í Danmörku, á sviðinu eftir frumsýningu á AfteRite og Etudes þar sem hann lýsti frammistöðu íslenska ballettdansarans Jóni Axel Franssyni.



Hübbe tók Jón Axel sérstaklega fyrir og fór hann mjög fögrum orðum um hinn 28 ára íslenska dansara. „Stjörnudansari kvöldsins er með hæfileika, hugmyndaflug, skynbragð á tónlist, iðni og guðdómlegan stökkkraft. Hann er gott dæmi um klassískan dansara en hann hefur góð tök á nútímadansi. Þetta þýðir að nafn hans er á óskalista allra gestadanshönnuða. Þegar hans dansar, skín sólin á sviðinu. Og þegar hann ræðst í háskalegt stökk er það líkt og að fylgjast með Heklugosi,“ sagði Hübbe.



Listræni stjórnandinn lauk svo máli sínu á að óska Jóni Axel til hamingju.



„Með þessum orðum varð Jón Axel Fransson nýjasti sólódansari Konunglega ballettsins,“ að því er fram kemur í fréttatilkynningu.



Jón Axel stundaði nám við Ballettskóla Konunglega leikhússins í Danmörku.

Jón Axel Fransson.Konunglegi ballettinn/Natascha Ryvald





Fleiri fréttir

Sjá meira


×