Innlent

Slydda og rigning með nýrri lægð

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Það verður blautt á Suður- og Vesturlandi í dag.
Það verður blautt á Suður- og Vesturlandi í dag. Vísir/vilhelm

Dálítil lægð er á hreyfingu austnorðaustur úr Grænlandshafi en úrkomusvæði lægðarinar fer inn á Suður- og Vesturland í dag. Þá hvessir úr austri og suðaustri með slyddu eða rigningu, en snjókomu til fjalla, að því er fram kemur í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands.

Þá verður hægara veður og lengst af þurrt fyrir norðan og austan. Áfram er gert ráð fyrir austlægri átt á morgun og hinn daginn og dálítilli úrkomu í flestum landshlutum. Frostlaust verður víða um land að deginum en sums staðar vægt frost inn til landsins.

Í ábendingu veðurfræðings á vef Vegagerðarinnar er þeim, sem eiga leið um Hellisheiði eða Þrengsli, bent á að um tíma í dag eða frá um kl. 13 og til 17 gerir hríðarveður ofan um 200 m. 14-17 m/s og lítið skyggni um tíma. Veður verður skárra á Mosfellsheiði og gengur niður undir kvöld.

Veðurhorfur á landinu í dag og næstu daga:

Í dag:
Hægt vaxandi suðaustanátt, 10-18 m/s og slydda eða rigning eftir hádegi, hvassast á Kjalarnesi. Lægir heldur í kvöld og smá skúrir. Suðaustan 5-10 og dálítil rigning um tíma á morgun. Hiti kringum frostmark

Á fimmtudag:

Suðaustlæg átt, 8-15 m/s, hvassast á annesjum. Dálítil slydda eða snjókoma á V-landi, rigning með köflum með S-ströndinni, en annars úrkomulítið. Hiti víða 0 til 5 stig, en vægt frost NA-til. 

Á föstudag:
Austlægar áttir, 8-15 m/s, hvassast syðst. Skýjað að mestu, slydda eða rigning með köflum S- og V-lands, en dálítil él við sjóinn NA-lands. Hiti víða 0 til 4 stig, en vægt frost inn til landsins. 

Á laugardag:
Austlæg átt og slydda eða snjókoma S-lands og él austast. Lægir og rofar til um kvöldið. Kólnandi veður í bili. 

Á sunnudag:
Suðvestlæg átt og slydda eða rigning, en úrkomulaust að mestu eystra. Hiti nærri frostmarki. 

Á mánudag:
Vaxandi sunnanátt með rigningu og hlýnandi veðri, en lengst af þurrt fyrir norðan. 

Á þriðjudag:
Lítur út fyrir hvassa suðvestanátt með skúrum eða slydduéljum, en þurrviðri NA-lands og kólnar aftur.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.