Innlent

Býst við breyttri skipan þingnefnda í kjölfar stækkunar Miðflokksins

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, sagðist í viðtali við kvöldfréttir Stöðvar 2 gera ráð fyrir breyttri verkaskiptingu í nefndum Alþingis í kjölfar þess að Karl Gauti Hjaltason og Ólafur Ísleifsson gengu til liðs við Miðflokkinn. Þeir voru í desember reknir úr Flokki fólksins eftir að Klaustursupptökurnar voru gerðar opinberar og hafa síðan þá setið á þingi sem óháðir þingmenn.

Sigmundur segir viðbótina, sem gerir Miðflokkinn að stærsta stjórnarandstöðuflokknum á þingi, hafa áhrif innan þings og utan.

„Innan Alþingis hefur þetta þau praktísku áhrif að við erum orðin stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn og fyrir vikið gerum við ráð fyrir breyttri verkaskiptingu í nefndum og slíku,“ segir Sigmundur og bætir við að Miðflokkurinn sé í raun orðinn forystuflokkur stjórnarandstöðunnar.

„Út á við hefur þetta þau áhrif að þingflokkurinn er orðinn stærri, kominn með tvo gríðarlega öfluga liðsmenn, Ólaf Ísleifsson, fáir standast honum snúning á sviði hagfræðinnar, Karl Gauta sem er gríðarlega öflugur á sviði lögfræði, laga og réttar og auðvitað eru þeir öflugir í mörgum öðrum málum líka. Þannig að þetta hefur bæði áhrif innan þings og utan.“

Sigmundur segist þá telja eðlilegt að stokkað verði upp í nefndum sem skipaðar voru að samkomulagi þingflokkanna eftir kosningar.

„Við teljum að sjálfsögðu tilefni til þess, enda eðlilegt að hlutverkaskipting í nefndum endurspegli þingstyrk flokkanna.“

Aðspurður hvort að breytingin á skipan þingflokks Miðflokksins muni hafa þau áhrif að flokkurinn muni leitast við að vinna betur með öðrum stjórnarandstöðuflokkum eða hvort hún kunni að leiða til meiri átaka innan andstöðunnar segir Sigmundur að eðlilegast væri ef stjórnarandstöðuflokkarnir funduðu um framhaldið.

„Við höfum verið í ágætis samstarfi hvað varðar praktísk atriði þó að það sé rétt að við séum mjög ólík pólitískt en eðlilegt næsta skref er að funda um þau mál.“

Viðtal við Sigmund Davíð í kvöldfréttum Stöðvar 2 má sjá í spilaranum hér að neðan.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×