Erlent

Spá því að þriðjungur ís­breiðu Himala­ja­fjalla muni bráðna

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Ísbreiða Himalajafjallanna er mikilvæg fyrir tvo milljarða íbúa á HKH-svæðinu.
Ísbreiða Himalajafjallanna er mikilvæg fyrir tvo milljarða íbúa á HKH-svæðinu. vísir/getty
Ítarleg rannsókn yfir 200 vísindamanna sem staðið hefur yfir í fimm ár á áhrifum loftslagsbreytinga á svokallað Hindu Kush-Himalaja-svæði (HKH) leiðir í ljós að þriðjungur af ísbreiðu Himalajafjalla mun bráðna vegna hnattrænnar hlýnunar á næstu 80 árum.

Bráðnunin mun hafa alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir tvo milljarða manna sem búa á HKH-svæðinu en það teygir sig frá Afganistan til Mjanmar. Er svæðið oft nefnt „þriðji póllinn“ þar sem þar er mesta magns íss á jörðinni fyrir utan Norður- og Suðurpólinn.

Sjokkerandi niðurstöður að mati vísindamanna

Í umfjöllun Guardian um skýrslu vísindamannanna segir að þrátt fyrir að hnattrænni hlýnun verði haldið innan 1,5 gráðu markanna og dregið verði mikið úr losun kolefnis þá mun þriðjungur ísbreiðunnar samt bráðna.

Ísbreiðan geymir vatnsbirgðir fyrir 250 milljónir manna sem búa á HKH-svæðinu auk þess sem 1,5 milljarður reiðir á gríðarstór fljót í Indlandi, Pakistan, Kína og víðar sem renna undan breiðunni.

Philippus Wester stýrði rannsókninni og segir niðurstöður hennar sjokkerandi.

„Þetta eru afleiðingar loftslagsbreytinga sem við höfum ekki heyrt um. Í besta falli, ef við gerumst mjög metnaðarfull í að sporna gegn loftslagsbreytingum, þá mun einn þriðji jöklanna samt bráðna og við verðum í vandræðum. Það voru sjokkerandi niðurstöður að okkar mati,“ segir Wester.

Mikil áhrif á bændur á svæðinu

Síðan á áttunda áratug síðustu aldar hafa fimmtán prósent jökla á HKH-svæðinu bráðnað en þar sem svæðið er gríðarstórt eru áhrif hnattrænnar hlýnunar á ísinn mismikil.

Sums staðar haldast jöklarnir jafnstórir og sumir hafa jafnvel stækkað en jafnvel þeir jöklar munu bráðna í framtíðinni að sögn Wester.

Bráðnun íssins mun valda því að vatnsyfirborð í ám mun hækka á milli 2050 og 2060 en svo mun rennslið í ánum minnka. Minna rennsli mun hafa mikil áhrif á rafmagnsframleiðslu á svæðinu sem og á bændur sem reiða sig á vatnsrennslið í búskap sínum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×