Innlent

Vegir víða lokaðir vegna veðurs

Samúel Karl Ólason skrifar
Vegir á sunnanverðu Snæfellsnesi eru lokaðir.
Vegir á sunnanverðu Snæfellsnesi eru lokaðir. Fréttablaðið/GVA
Búið er að loka vegum víða um land vegna veðurs. Lokað er á Siglufjarðarvegi vegna snjóflóðahættu og þá er óvissustig á Ólafsfjarðarmúla og Súðavíkurhlíð. Ólafsfjarðarmúla hefur þó verið lokað.

Þar að auki er búið að loka á sunnanverðu Snæfellsnesi. Þverárfjalli, Siglufjarðarvegi, Ólafsfjarðarmúla, Öxnadalsheiði, Víkurskarði, Mývatns- og Mörudalsöræfum, Vopnafjarðarheiði og Hófaskarði, samkvæmt tilkynningu frá Vegagerðinni sem send var klukkan 7:06.

Unnið er að mokstri á norðanverðu landinu en greiðfært er um sunnanvert landið. Framkvæmdir standa yfir á Grindavíkurvegi, milli afleggjara að Seltjörn og Bláa lónsins. Unnið er á einni akrein í einu og umferðarhraði tekinn niður. Búast má við einhverjum umferðartöfum en áætluð verklok eru í árslok 2018.

Færð

Suðvesturland: Hálkublettir eru í Þrengslum en óveður og hálkublettir á Kjalarnesi.

Vesturland: Lokað er í Staðarsveit og ófært er á Fróðárheiði, hálkublettir, snjóþekja og éljagangur á öðrum leiðum en þó er greiðfært er í uppsveitum Borgarfjarðar. Stórhríð er í Miðdölum og í Svínadal.

Vestfirðir: Þungfært er á flestum fjallvegum, stórhríð og éljagangur. Ófært er á Klettshálsi og Þröskuldum. Hálka, snjóþekja og éljagangur er á Mikladal, Hálfdán og Gemlufallsheiði.

Norðurland: Lokað er á Þverárfjalli, Öxnadalsheiði, Ólafsfjarðarmúla og á Siglufjarðarvegi frá Ketilás í Siglufjörð. Lokað er á Víkurskarði. Hálka og hálkublettir á öðrum leiðum og éljagangur víða. Þæfingur er í Út-Blönduhlíð í Hofsós.

Norðausturland: Lokað er um Mývatns- og Möðrudalsöræfi, Vopnafjarðarheiði, Hólasand og á Hófaskarði. Þungfært er á Hólaheiði. Ófært er í Mývatnssveit Fljótsheiði og Ljósavatnsskarði. Þæfingur frá Hálsum í Bakkafjörð. Snjóþekja á Sandvíkurheiði og við Vopnafjörð.

Austurland: Snjóþekja og snjókoma er á Fjarðarheiði, krapi á Fagradal, snjóþekja er víða á Héraði en greiðfært með ströndinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×