Sport

Loeb með sögulegan sigur í spænska rallinu

Bragi Þórðarson skrifar
Loeb og Elena fagna sigrinum um helgina
Loeb og Elena fagna sigrinum um helgina Vísir/Getty
Besti ökumaður í sögu heimsmeistaramótsins í ralli, Sebastian Loeb, stóð uppi sem sigurvegari í spænska rallinu um helgina. Rallið var það tólfta og næstsíðasta í heimsmeistaramótinu í ár.

Loeb, ásamt aðstoðarökumanni sínum Daniel Elena, varð heimsmeistari níu ár í röð frá árunum 2004 til 2012. Frakkinn lagði rallskónna á hilluna það árið en hefur þó keppt eina og eina keppni með Citroen síðan.

Liðin eru rúm fimm ár síðan Loeb vann síðast keppni í heimsmeistaramótinu í ralli. Hinn 44 ára gamli Frakki er nú þriðji elsti ökumaðurinn til að ná þeim árangri.

Sigurinn varð einnig sá fyrsti fyrir Citroen á árinu en Loeb hefur verið að hjálpa liðinu að þróa C4 bílinn í ár.

Keppnin um heimsmeistaratitilinn er afar spennandi, í öðru sæti á eftir Loeb um helgina varð landi hans Sebastian Ogier. Ford ökuþórinn hrifsaði því fyrsta sætið í heimsmeistaramótinu af Belganum Thierry Neuville sem ekur fyrir Hyundai.

Neuville hefur leitt mótið síðastliðna sex mánuði en er nú þremur stigum á eftir Ogier fyrir lokaumferðina sem fer fram í Ástralíu eftir þrjár vikur. Ogier er því í kjörstöðu til að tryggja sér sinn sjötta heimsmeistaratitil í ralli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×