Innlent

Kristján Loftsson tók við frelsisverðlaunum SUS fyrir baráttu sína fyrir hvalveiðum

Birgir Olgeirsson skrifar
Kristján Loftsson ávarpaði samkomuna í Valhöll í gærkvöldi.
Kristján Loftsson ávarpaði samkomuna í Valhöll í gærkvöldi. SUS

Frelsisverðlaun Sambands ungra Sjálfstæðismanna voru veitt við hátíðlega athöfn í Valhöll í gærkvöldi. Var þetta í tólfta sinn sem verðlaunin voru veitt en Ingvar S. Birgisson, formaður SUS, ávarpaði fundinn og veitti verðlaunin fyrir hönd stjórnarinnar.

Voru verðlaunin veitt einum einstaklingi og einum lögaðila. Í tilkynningu frá SUS kemur fram að báðir verðlaunahafar í ár eigi það sameiginlegt að berjast fyrir auknu atvinnufrelsi.

Sá einstaklingur sem hlaut verðlaunin í ár er Ásdís Halla Bragadóttir fyrir „áralanga baráttu sína fyrir auknu valfrelsi í heilbrigðis- og menntamálum“, líkt og það er orðað í tilkynningunni.

„Sem bæjarstjóri Garðabæjar studdi hún við sjálfstæðan rekstur skóla í sveitarfélaginu. Hefur það leitt til þess að skólakerfið í Garðabæ er fjölbreyttara, sveigjanlegra og þjónustar nemendur betur en ella. Þá hefur Ásdís verið áberandi í umræðunni á þessu ári um baráttu Kliníkurinnar í Ármúla fyrir sjálfstæðum rekstri í heilbrigðiskerfinu. Slíkur rekstur bætir þjónustu við sjúklinga, styttir biðraðir og nýtir skattfé betur,“ segir í tilkynningunni.

Lögaðilinn sem var verðlaunaður er Hvalur hf. en forstjóri félagsins, Kristján Loftsson, tók við verðlaununum.

„Hvalur hf. hlaut verðlaunin fyrir baráttu sína fyrir hvalveiðum á Íslandsmiðum. Hvalveiðar fela í sér mikilvægt atvinnufrelsi en Hvalur hf. hefur í fjölmörg ár barist fyrir því að veiðar á hvölum séu leyfðar, enda er um sjálfbæra nýtingu að ræða sem styðst við vísindaleg gögn,“ segir í tilkynningunni.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.