Sport

Grét eftir stærsta sigur ferilsins en ekki af gleði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Naomi Osaka grætur í leikslok.
Naomi Osaka grætur í leikslok. Vísir/Getty
Naomi Osaka náði um helgina bæði besta árangri sínum á ferlinum og varð fyrsta japanska konan til vinna risamót. Það er hins vegar mjög fáir að tala um sögulegan sigur Osaka á Opna bandaríska meistaramótinu því öll umræðan snýst um viðbrögð Serenu Williams.

Það var vissulega allt til alls til að tenisheimurinn og aðrir myndu missa sig yfir sigri Naomi Osaka. Tvítug stelpa sem er líkleg til afreka í framtíðinni var þarna að vinna átrúnaðargoðið sitt í tveimur settum í sínum fyrsta úrslitaleik á risamóti. Frábær frammistaða og frábær sigur.





Það voru aftur á móti fáir að tala um frábæra spilamennsku hennar og sögulegan sigur eftir leikinn. Serena Williams hafði skíttapað fyrir henni í úrslitaleiknum en stal engu að síður öllum fyrirsögnunum.

Með sigri á Opna bandaríska meistaramótinu tvöfaldaði Naomi Osaka verðlaunaféð sem hún hafði unnið á öllum ferlinum fram að þessu móti.





Naomi Osaka grét eftir stærsta sigur ferilsins en ekki af gleði. Við hlið hennar stóð öskureið Serena Williams og áhorfendaskarinn baulaði. Ótrúlegar kingumstæður og hin unga tenniskona gat ekki varist tárunum.

Hin tapsára Serena Williams hafði algjörlega misst sig í samskiptunum við dómara leiksins. Dómarinn var harður og kannski smámunasamur en allir dómar hans voru eftir bókinni. Serena taldi sig hins vegar eiga rétt á stjörnumeðferð þegar kom að því að fara eftir reglunum og hefur síðan talað um að karlmaður af hennar „stjörnugráðu“ hefði aldrei fengið svona dóm.

Það er örugglega eitthvað til í því en réttlætir það samt svona hegðun hjá konu sem er að flestra mati sú besta sem hefur spilað tennisíþróttina. Serena Williams fékk skiljanlega stóra sekt en hún mun aldrei geta bætt fyrir það tjón að stela sigurstundinni af Naomi Osaka.





Naomi Osaka upplifði drauminn sinn að vinna goðið sitt í úrslitaleik á risamóti en horfði gleðistundina breytast í martröð.

Serena fékk vissulega fólkið til að hætta að baula og Naomi Osaka gat lyft bikarnum í friði fyrir „baulinu“ en það breytir því ekki að háttalag sigursælustu tenniskonu allra tíma og viðbrögð áhorfendanna voru búin að stela sigurstundinni af Naomi Osaka.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×