Innlent

„Ekkert sem gefur til kynna að hér sé gangbraut“

Sunna Sæmundsdóttir skrifar

Foreldrar stúlku sem varð fyrir bíl á gangbraut í Grafarholti gagnrýna skort á merkingum við götuna. Engin leið sé fyrir ökumenn að átta sig á því að gangandi vegfarendur eigi leið þar yfir.

Leiðir fyrir gangandi vegfarendur yfir umferðargötur eru flokkaðar niður í leiðbeiningum Vegagerðarinnar og reglugerðum. Er þar meðal annars rætt um gangbrautir sem þurfa að vera merktar og gönguþveranir, sem mega vera ómerktar. Fólk sem á leið yfir Vínlandsleið í Grafarholti þarf til dæmis að fara yfir gönguþverun sem er ekki merkt og þarf ekki að merkja.
Á þriðjudag var ekið á ellefu ára gamla stúlku sem átti leið yfir götuna. 

„Ég og vinkona mín vorum að fara yfir götuna og við biðum þar til bíllinn myndi stoppa. Hann hægði á sér og við ákváðum að fara yfir en síðan fór hann bara áfram og keyrði á mig og ég datt bara niður," segir Franziska Hauksdóttir.

Betur fór en á horfði og Franziska slapp með marbletti og eymsli. Faðir hennar segir ökumanninn ekki hafa tekið eftir að þarna væri gönguleið yfir götuna.

„Þegar maður kemur hérna að er ekkert sem gefur til kynna að hér sé gangbraut. Þannig það er erfitt fyrir alla ökumenn að átta sig á því hvað er í gangi hérna," segir Haukur Jónsson.

„Nágrannar hérna í hverfinu hafa oftar en einu sinni orðið vitni af því að næstum því hefur orðið slys. Þeim var verulega brugðið að hér hefði síðan orðið slys," segir Valgerður Maack, móður Franzisku.

Þau telja merkingar þurf að vera skýrar alls staðar við allar gönguleiðir til þess að börn og ökumenn átti sig á aðstæðum. 

„Víða hérna í kringum okkur og í öðrum sveitarfélögum sjáum við að allt er mjög vel merkt. Göturnar eru málaðar kyrfilega með hvítum strikum og ost eru blikkandi ljós sem gefa til kynna að gangbraut sé framundan. Eitthvað til þess að vara ökumenn við," segir Haukur



Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.