Innlent

Í tíu daga gæsluvarðhald vegna stunguárásar á Akranesi

Birgir Olgeirsson skrifar
Úrskurðurinn var kærður til Landsréttar.
Úrskurðurinn var kærður til Landsréttar. Vísir/Vilhelm
Maðurinn sem grunaður er að hafa stungið annan mann í hálsinn á Akranesi hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til 2. ágúst. Var maðurinn leiddur fyrir dómara í gær sem samþykkt kröfu lögreglustjórans um gæsluvarðhald. Hefur úrskurðurinn verið kærður til Landsréttar. 

Lögreglunni barst tilkynning rétt fyrir miðnætti síðastliðið sunnudagskvöld frá Sjúkrahúsinu á Akranesi vegna manns sem hafði leitað þangað og lét ófriðlega.

Þegar lögreglumenn komu á vettvang var maðurinn á bak og burt. Á meðan lögreglumenn voru enn á vettvangi barst svo önnur tilkynning frá manni sem búsettur er nærri sjúkrahúsinu. Bað sá um aðstoð lögreglu þar sem verið væri að ráðast á hann. Við þetta bættist svo þriðja tilkynningin um að maður hefði verið stunginn með hnífi þarna.

Sjúkraflutningamenn á Akranesi ásamt lögreglu fóru á vettvang. Í ljós kom að  maður hafði verið stunginn í hálsinn með hníf og var hann fluttur með hraði á Sjúkrahúsið á Akranesi og eftir aðhlynningu þar og undirbúning var hann fluttur til Reykjavíkur á Landspítala.

Sá sem fyrir stungunni varð, var sá hinn sami og látið hafði ófriðlega á sjúkrahúsinu skömmu áður.

Maðurinn sem varð fyrir árásinni var hætt kominn fyrst um sinn en í gær var greint frá því að hann væri ekki lengur í lífshættu. Mennirnir tveir eru báðir búsettir á þeim stað sem atvikið átti sér stað.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×