Innlent

Sóttu slasaðan mann í Reykjadal

Andri Eysteinsson skrifar
Björgunarsveitir voru kallaðar út vegna slasaðs göngumanns, mynd úr safni.
Björgunarsveitir voru kallaðar út vegna slasaðs göngumanns, mynd úr safni. Vísir/Ernir
Rétt eftir hádegi í dag barst björgunarsveitum á suðurlandi tilkynning um göngumann sem hafði slasað sig í Reykjadal ofan Hveragerðis.

Ekki var um alvarlega áverka að ræða en viðkomandi var þó ekki göngufær. Björgunarsveitarfólk var kallað á staðinn og bjó um áverkann og bar viðkomandi til byggða.

Í tilkynningu Landsbjargar kemur einnig fram að nokkur erill hafi verið á björgunarsveitum um allt land.

Slasaður göngumaður var í gærkvöldi sóttur í Geldingafellskála, norðaustan við Vatnajökul, áverkar hans voru ekki alvarlegir en maðurinn þó ekki göngufær. Vegna vegalengdarinnar til byggða komu björgunarsveitir manninum ekki til byggða fyrr en snemma morguns.

Við Sprengisandsleið höfðu ferðamenn fest bifreið sína í miðri á, bíllinn var dreginn upp úr ánni og ekkert amaði að ferðamönnunum.

Nokkrar tilkynningar hafa borist um að fólk hafi fest bíla sína í straumvatni og rétt er að benda á að í rigningatíð geta ár breyst hratt og því ætíð betra að leita upplýsinga um aðstæður áður en lagt er af stað.Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.