Lífið

Hannes vinsæll á kínverskum samfélagsmiðlum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Hannes Þór Halldórsson grípur ekki bara bolta - heldur líka athygli.
Hannes Þór Halldórsson grípur ekki bara bolta - heldur líka athygli. VÍSIR/VILHELM

Þrátt fyrir grátlegt tap gegn Nígeríu á föstudag hefur íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu vakið mikla eftirtekt í Kína frá því að heimsmeistaramótið hófst í Rússlandi.

Kínverjar, þrátt fyrir að vera ríflega 1,4 milljarðar talsins, eiga ekki landslið á mótinu í ár. Þeim þykir því harla merkilegt að smáþjóðin Íslendingar leiki nú á stærsta fótboltasviði heimsins.

Jafntefli íslenska landsliðsins gegn Argentínu þótti mikið afrek á kínverska samfélagsmiðlinum Weibo. „Ísland er kannski lítið land á heimsmeistaramótinu, en það fangaði hug og hjörtu okkar,“ segir í færslu eins kínversks netverja sem deilt hefur verið mörgþúsund sinnum.

Forvitnilegar greinar um íslenska landsliðið hafa að sama skapi farið á mikið flug á Weibo. Það að landsliðsþjálfarinn sé tannlæknir og markmaðurinn sé kvikmyndagerðarmaður þykir þannig gríðarlega merkilegt eystra, en rúmlega 100 þúsund kínverjar hafa deilt frétt um málið á samfélagsmiðlinum.

Þá er Hannes Þór Halldórsson sagður hafa öðlast rúmlega 30 þúsund nýja fylgjendur á Weibo á tveimur sólarhringum eftir fræknar markvörslur hans gegn Argentínu. Næstum 50 þúsund Kínverjar fylgjast nú með færslum markmannsins á miðlinum.

Á síðu Hannesar má sjá myndbandsskilaboð hans til fylgjenda sinna. Í þeim hvetur hann þá til að styðja íslenska landsliðið í blíðu og stríðu. Skilaboðunum hefur verið deilt næstum 7 þúsund sinnum og fengið rúmlega 50 þúsund kínversk „læk.“

Þessi mikla athygli í Kína er sögð hafa skilað sér í auknum áhuga á Íslandsferðum. Haft er eftir starfsmanni ferðaskrifstofu í Peking á vef ECNS að fyrirspurnum um Ísland hafi fjölgað mikið frá því að heimsmeistaramótið hófst.

Sendiherra Íslands í Kína, Gunnar Snorri Gunnarsson, segir í samtali við sama miðil að Íslendingar taki Kínverjum fagnandi. Um 20 þúsund kínverskir ferðamenn hafi sótt landið heim á síðasta ári og unnið sé að því að einfalda vegabréfsáritunarferlið fyrir Kínverja. Því sé ekkert því til fyrirstöðu að kínverskum ferðamönnum fjölgi á Íslandi á næstu árum.


Tengdar fréttir

Stelpurnar sem sigruðu utanvallar

Eftir mynd með ungri stelpu enduðu Hera og Gurrý í viðtölum við fjölmargar fréttastofur, fólk dreif að og bað um mynd. Fylgjendunum fjölgar á Instagram og eru þær í hópi flottustu áhorfenda HM að mati íþróttavefsíðu.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.