Innlent

Sirkus fær framhaldslíf á Seyðisfirði

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Skemmtistaðurinn Sirkus verður opnaður á ný og nánast í upprunalegri mynd á Seyðisfirði innan tíðar. Græjunar, barborðið og stólarnir frá gamla staðnum sitja í gámi við hafnarbakkann.

Sirkus var vinsæll skemmtistaður í miðbæ Reykjavíkur á árum áður þar sem fastakúnnar úr úr lista- og menningarlífinu voru áberandi. Staðnum var lokað árið 2007 en tveimur árum síðar var útibú opnað í Færeyjum. Sigríður Guðlaugsdóttir, eigandi staðarins, er nú flutt á Seyðisfjörð og tók leifar Sirkuss með sér. Hún ætlar að kveikja aftur á gömlu græjunum á næstu mánuðum.

„Við erum bara með húsið hérna í gámi og þetta var búið að vera í geymslu í Hafnarfirði í átta ár. Það var eiginlega ekkert annað í stöðunni fyrst ég flutti hingað en að taka þetta bara með sér," segir Sigríður.  „Við erum meira að segja með græjurnar. Við erum með soundboxið sem Sigurrós átti. Við erum með gömlu myndirnar sem Sigríður Hrólfs gerði ennþá á veggjunum."

Menningarlífið hefur verið í miklum blóma á Seyðisfirði á síðustu árum og telur Sigríður að Sirkus eigi þar vel heima en staðurinn verður við hafnarbakkann.

„Reykjavík hefur breyst svo óhemju mikið. Fyrir mér er hún bara eins og hver önnur stórborg. Ég sakna litla 101-þorpsins sem ég bjó og ólst upp í."

Hún bendir á að áhugasamir geti jafnvel farið í Sirkus-ferðir með Norrænu frá Seyðisfirði til Færeyja og skoðað báða staðina en stefnt er á opnun fyrir sumarið. „Ég gat aldrei losað mig við hann. Hann var í gám, hvað átti ég að gera við þetta. Maður fór eitthvert og allir spurðu að því sama. Svo samviskan veðrur hrein, þegar ég opna þetta get ég farið að gera eitthvað annað," segir Sigríður létt í bragði.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.