Lífið

Rífumst í þessum mánuði

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Stefanía Ásdís við listaverkin sem hún bjó til á vegginn og Aníta Ósk með veðhlauparann sem hún byrjaði að rækta í 1. bekk.
Stefanía Ásdís við listaverkin sem hún bjó til á vegginn og Aníta Ósk með veðhlauparann sem hún byrjaði að rækta í 1. bekk. Vísir/Eyþór

Systurnar Stefanía Ásdís og Aníta Ósk Stefánsdætur, sem eru níu og sjö ára, eiga báðar afmæli í maí. Þær eiga nú heima í Hveragerði en voru áður í Vogum á Vatnsleysuströnd. Hvernig leika þær sér helst saman?  

Stefanía: Með því að rífast. (Þær skellihlæja báðar.) Að minnsta kosti í þessum mánuði.

Hvað rífist þið um? Aníta: Um dótið, Ég vil hafa það sem hún er að leika með og öfugt!

Sláist þið? Aníta: Nei, en hún beit mig einu sinni.

Stefanía: Og ég fór í straff.

Fórstu þá inn í herbergið þitt? Stefanía: Nei, ég bara fékk ekki að fara út að leika dálitla stund.

Eigið þið vini hér í kring? Aníta: Ég á nokkra.

Stefanía: Og ég á fimm vinkonur hérna.

Finnst ykkur gaman að lesa? Já, um líkamann. Það er fróðlegt.

En hvað er skemmtilegast í skólanum? Stefanía: Krakkaspjallið, þá er hálfur bekkurinn að tala saman og æfa samskipti og tveir kennarar að stjórna meðan hinn helmingurinn er í tölvu eða tónmennt.

Aníta: Stærðfræði og líka nudd sem er stundum í lok skóladags.

Ert þú þá nudduð eða lærir þú að nudda aðra? Aníta: Hvort tveggja. Ég nudda og fæ líka nudd.

Stefanía: Ég er í jóga í skólanum, einn tími er 20 mínútur og svo er farið í sund.

Er ykkur kennd ræktun hér í blómabænum? Stefanía: Já, í 3. bekk. Þá er farið í Garðyrkjuskólann.

Aníta: Ég fékk að rækta blóm í 1. bekk og það hefur stækkað rosalega mikið. Ég skal sýna ykkur það. Ég er alltaf að snyrta það.

Stefanía: Mitt blóm er bara ónýtt. –Fáum við eina opnu í blaðinu? Eða kannski tvær?

Nei, en hvað er best við að búa í Hveragerði? Stefanía: Þá þurfum við ekki að fara til Keflavíkur að versla eins og þegar við vorum í Vogunum.

Aníta: Hér eru búðir sem við getum keypt allt í.

Stefanía: Svo er fullt af krummum. Þeir búa uppi í hamrinum.

Aníta. Já, og berjast um brauðið sem litlu fuglarnir eiga að fá.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.