Innlent

Segir umskurð drengja ekki eins sársaukafullan og af er látið

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
Erlendur kvensjúkdómalæknir sem framkvæmt hefur umskurð á drengjum í hundruð skipta hvetur til upplýsandi umræðu um þessi mál hér á landi. Hann segir umskurðinn ekki sársaukafullan og að flest börn hafi verið sofandi á meðan framkvæmdin átti sér stað.

Frumvarp Silju Daggar Gunnarsdóttur, þingmanns Framsóknarflokksins um bann við umskurði drengja liggur nú fyrir til annarrar umræðu í allsherjar- og menntamálanefnd. Málið þykir afar umdeilt en verði frumvarpið að lögum verður umskurður á drengjum gerður refsiverður.

Ty Erickson er sérfræðilæknir frá Bandaríkjunum og hefur framkvæmt hundruð umskurða í heimalandi sínu. Honum finnst áhugavert hversu mikil umræða er um þessi mál hér á landi.  Hann segir að á engan hátt sé hægt að bera saman umskurð drengja og umskurð stúlkna. „Við tölum ekki lengur um "umskurð kvenna" því þetta var ekki umskurður, þetta var afskræming á kynfærum kvenna. Ég er algerlega á móti hvers konar löskun á kynfærum kvenna“, segir Ty Erickson, kvensjúkdómalæknir. Sú aðgerð hafi verið ofbeldisfull og meiðandi en svo sé ekki með umskurð drengja.

Ty Erickson segir að umskurður drengja sé alls ekki eins sársaukafullur og af er látið.Stöð 2
„Ég hef framkvæmt hundruð umskurða á barnungum drengjum með deyfingu og í dauðhreinsuðu umhverfi. Þarna er um það að ræða að fjarlægja dálitla húð en ekki karlkyns kynfæri, sem er allt annar handleggur,“ segir Ty. 

Hann segir umskurð drengja alls ekki eins sársaukafullan og af er látið. „Flest börnin sem ég hef gert þetta við hafa sofið, bókstaflega sofið á meðan á aðgerðinni stóð. Svo þetta er ekki sársaukafull aðgerð. Ég hef gert hundruð aðgerða. Ef þetta er gert rétt, með deyfingu, þá er þetta ekki kvalafull aðgerð,“ segir Ty. 

Ty hvetur áfram til upplýsandi umræðu í þjóðfélaginu en segir að ekki sé rétt að glæpavæða framkvæmdina. Hann segir læknisfræðina hafa margsannað að umskurður drengja sé af hinu góða. „Það er tíföld fækkun reðurkrabbameinstilfella, það er fjórföld fækkun þvagfærasýkinga, það dregur úr hættunni á útbreiðslu kynsjúkdóma. Af þessum ástæðum og öðrum er mikill læknisfræðilegur ávinningur. Ég er ekki að segja að það ætti að umskera alla en þar sem það er ávinningur af þessu ætti að taka foreldrana inn í jöfnuna þegar ákveðið er hver menningin er og hvernig best sé að þjóna barninu,“ segir Ty Erickson kvensjúkdómalæknir.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.