Innlent

Engin fyrirstaða að flytja til Reykjavíkur

Sigurður Mikael Jónsson skrifar
Vilhjálmur hallar sínu höfði í Garðabæ en er Reykvíkingur út í gegn.
Vilhjálmur hallar sínu höfði í Garðabæ en er Reykvíkingur út í gegn. vísir/stefán
„Þá bara tökum við þann slag,“ segir Vilhjálmur Bjarnason, frambjóðandi í leiðtogakjöri Sjálfstæðisflokksins í borginni og svarar að það verði engin fyrirstaða að þurfa að flytja til Reykjavíkur fari svo að hann hreppi oddvitasæti flokksins fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 26. maí næstkomandi.

Vilhjálmur er sem kunnugt er búsettur í Garðabæ og einn af þekktustu íbúum bæjarins eftir vasklega framgöngu fyrir hans hönd í Útsvari.

Samkvæmt lögum um kosningar til sveitarstjórna telst hver sá kjörgengur sem á kosningarétt í sveitarfélaginu og kosningarrétt á hver sá sem á lögheimili í viðkomandi sveitarfélagi. Því er ljóst að ef til þess kæmi yrði Vilhjálmur að flytjast búferlum til Reykjavíkur, að minnsta kosti þremur vikum fyrir kosningar.

„Já, já. Þá bara tökum við þann slag. Það er engin fyrirstaða. Ég er fæddur í Reykjavík, alinn upp í Reykjavík og gekk í skóla í Reykjavík. Ég er í Reykjavík fjórtán til sextán klukkutíma á sólarhring og legg mig stundum í Garðabæ í sex til átta tíma. Mér finnst þetta smáatriði miðað við vandamál borgarinnar.“

Leiðtogaprófkjör Sjálfstæðisflokksins fer fram 27. janúar næstkomandi þar sem Vilhjálmur, Áslaug María Friðriksdóttir, Eyþór Arnalds, Kjartan Magnússon og Viðar H. Guðjohnsen gefa kost á sér .






Fleiri fréttir

Sjá meira


×