Innlent

Rannsókn á meintum fjárdrætti á Siglufirði er nú á lokametrunum

Haraldur Guðmundsson skrifar
Afl varð til við samruna tveggja sparisjóða.
Afl varð til við samruna tveggja sparisjóða. vísir/stefán
Rannsókn héraðssaksóknara á meintum fjárdrætti úr Afli sparisjóði, sparisjóði Siglufjarðar, ætti að ljúka í næsta mánuði. Þetta segir Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari og staðfestir að tekist hafi að yfirheyra Magnús Jónasson, fyrrverandi skrifstofustjóra sparisjóðsins, í síðasta mánuði.

Ólafur Þór vill ekki svara því hvort aðrir liggi undir grun í málinu. Tveir menn voru handteknir og þar á meðal Magnús í september 2015 vegna gruns um fjárdrátt en skrifstofustjórinn fyrrverandi lét af störfum í sparisjóðnum í júní það ár við yfirtöku Arion banka á fyrirtækinu. Kom þá fram að rökstuddur grunur hefði komið upp vegna fyrirspurnar Embættis sérstaks saksóknara í alls óskyldu máli. Rúmum mánuði síðar var greint frá því að Magnús væri grunaður um að hafa dregið sér rúmar 100 milljónir króna í starfi og baðst hann lausnar sem forseti bæjarstjórnar Fjallabyggðar. Ráðist var í húsleitir á Siglufirði í desember 2016 og aðrir tveir menn handteknir. Annar þeirra var Ólafur Jónsson, fyrrverandi sparisjóðsstjóri Afls.

Rannsóknin hafði legið á ís vegna alvarlegra veikinda Magnúsar þegar Fréttablaðið fjallaði síðast um málið eða í mars í fyrra. Í sama mánuði felldi Hæstiréttur úr gildi úrskurð Héraðsdóms Norðurlands eystra um að fresta skaðabótamáli þar til rannsókn á meintum brotum Magnúsar, sem talið er að hafi staðið yfir á nokkurra ára tímabili, væri lokið. Var þeirri niðurstöðu mótmælt bæði af lögmanni hans og Arion banka sem rekur nú útibú á Siglufirði undir sínum merkjum.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×