Vonast er til þess að búið verði að dæla stærstum hluta eldsneytisins úr flutningaskipinu Fjordvik á land í fyrramálið, segir hafnarstjóri hjá Reykjaneshöfn, Halldór Karl Hermannsson.
Flutningaskipið Fjordvik er enn strandað við hafnargarðinn í Helguvík. 104 tonn af olíu voru um borð í skipinu en dæling hefur farið fram síðan í fyrradag.
Í dag verður komið fyrir búnaði til þess að dæla sjó úr skipinu sem komist hefur þangað inn. Halldór segir illmögulegt að dæla allri olíunni út því erfitt hafi reynst að komast að ákveðnum stöðum. Kafarar tóku skipið út utan frá í gærmorgun.
Halldór segir ljóst að skemmdirnar á skipinu séu töluverðar. „Það er misjafnt en það sem liggur alveg í grjótinu er að hluta til mjög skemmt en þó kannski ekki óyfirstíganlegt,“ segir hann. Í dag muni það skýrast betur hvernig hægt sé að bera sig að til þess að koma skipinu út. Það verði gert með því að fjarlægja sjó og olíu úr skipinu. Því næst verði reynt að loka fyrir þau göt sem hægt er að loka fyrir og skipinu svo fleytt til hafnar þar sem endanleg viðgerð fer fram.
Næsti stöðufundur fer fram í hádeginu í dag.
Mest af olíunni á land í dag

Tengdar fréttir

Vonast til að kafarar geti kannað skemmdir á Fjordvik í dag
Öflugar dælur voru fluttar til Helguvíkur í nótt til að taka við olíudælingu úr sementsflutningaskipinu Fjordvik, sem strandaði þar í fyrrinótt, þar sem dæling gekk ekki sem skyldi í gær.

Rifbeinsbrotnaði við björgunina í Helguvík: „Ég varð bara að bíta á jaxlinn, það var ekkert öðruvísi“
Guðmundur Ragnar Magnússon, sigmaður hjá Landhelgisgæslunni, rifbeinsbrotnaði við lendingu í flutningaskipinu Fjordvik sem sigldi upp í hafnargarðinn í Helguvík aðfaranótt laugardags.

Tryggja skipið áður en lægð gengur inn á land á morgun
Búist við að búið verði að ná allri þeirri olíu sem hægt er að ná úr skipinu, í kvöld