Innlent

Borgin skorar á ráðherra að rukka þá sérstaklega sem aka á negldum dekkjum

Jakob Bjarnar skrifar
Hjálmar Sveinsson vill að þeir sem aka um á negldum verði rukkaðir sérstaklega en minnihlutinn segir að verið sé að refsa þeim sem búa við götur sem ekki eru mokaðar reglulega.
Hjálmar Sveinsson vill að þeir sem aka um á negldum verði rukkaðir sérstaklega en minnihlutinn segir að verið sé að refsa þeim sem búa við götur sem ekki eru mokaðar reglulega.
„Þetta er umdeilt en við ákváðum samt að greiða atkvæði gegn meirihlutanum í umhverfis- og skipulagsráði vegna gjaldtöku á nagladekk,“ segir Halldór Halldórsson oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurborg.

Meirihlutinn í skipulags- og umhverfisráði Reykjavíkur, hvar Hjálmar Sveinsson er formaður, samþykkti á fundi í morgun að skora á ráðherra að taka upp sérstaka gjaldtöku á þá eigendur ökutækja sem nota nagladekk undir farartæki sín. Vísir fjallaði um málið í síðasta mánuði.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina; Halldór Halldórsson, Herdís Þorvaldsdóttir og Guðfinna Jóh. Guðmundsdóttir lögðust gegn þessu með sérstakri bókun vegna málsins.

Meirihlutinn felldi tillögu Sjálfstæðisflokksins um að heimild yrði ekki samþykkt nema að undangenginni íbúakosningu. Í bókun minnihlutans segir að mikilvægt sé að hafa í huga að borgarbúar sem nota nagladekk gera það vegna þess að þeirra öryggistilfinning segir þeim að þannig séu þeir öruggari í umferðinni.

„Auk þess búa margir í íbúðagötum þar sem mikill halli er og léleg þjónusta. Þessir íbúar hafa ekki fundið aðra leið en að nota nagla. Með gjaldtöku er verið að refsa þeim fyrir að búa á stöðum þar sem íbúagötur eru ekki almennilega færar marga daga í röð þar sem þær eru ekki mokaðar. Til að gera nagladekk óþörf þarf betri vetrarþjónustu en er í boði í dag.

Hluti röksemdarfærslu meirihlutans fyrir því að hefja gjaldtöku vegna nagladekkja snýr að svifryki. Besta leiðin til að vinna gegn svifryki er að þrífa göturnar oftar en það hefur verið vanrækt,“ segir í bókuninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×