Gjörningurinn Horfið eftir Elísabetu Birtu Sveinsdóttur verður sýndur í Mengi í kvöld klukkan níu. Tónlistin er unnin í samstarfi við Ísabellu Katarínu Márusdóttir.
„Sýningin er á mörkum þess að vera myndlist, dans eða tónleikar og fjallar um hlutgervingu kvenlíkamans líkt og dýra í neyslusamfélagi samtímans, verkið byggist á yfirdrifinni tilvistarkreppu og uppgjöf gagnvart mannskepnunni. Endurtekning og þráhyggja í verkinu sem birtist í gjörðum flytjandans snýst um sjálfsmeiðingu í vítahring kapítalismans, samfélagsins sem er eins og fangelsi. Persónan er sértekning eða abstraktisering á göllum manneskjunnar í nútímanum, hún er gagnrýnin en einnig sek, lifir og tekur þátt í umhverfi sem hún skapaði utan um sig sjálfa sem er að kúga hana,“ segir Elísabet en hún sviðs- og myndlistarkona sem er búsett í Reykjavík.
Elísabet hefur síðustu ár unnið mikið með birtingarmyndir kvenlíkamans og hvernig hann er meðhöndlaður og hlutgerður í neyslusamfélagi nútímans.
Elísabet sýndi verkið 51. A.D. á samsýningunni Svipasafnið í Verksmiðjunni á Hjalteyri og verkið Cold Intimacy sem hún frumflutti í Mengi sumarið 2016. Hún er útskrifuð með BA-gráðu í samtímadansi frá Listaháskóla Íslands og BA-gráðu í myndlist frá sama skóla.
Gjörningurinn Horfið fluttur í Mengi í kvöld
Stefán Þór Hjartarson skrifar
