„Það er alveg augljóst að það er mikill áhugi,“ segir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair. „Við höfum fengið fyrirspurnir og greinilega eru margir að velta þessu fyrir sér.“

Guðjón bendir á að enn sé ekki ljóst hvar Ísland muni leika ef allt fer á besta veg, leikið verði í ellefu borgum í Rússlandi sem sé gríðarstórt land og margra klukkustunda langt flug milli sumra borganna sem leikið verður í.
Á síðasta ári var gríðarlegt álag á flugfélögunum vegna Frakklandsferða íslenskra knattspyrnuáhugamanna. Guðjón segir Rússland almennt ekki vinsælan áfangastað hjá hinum almenna íslenska ferðamanni, en er Icelandair reynslunni ríkari eftir ævintýrið í Frakklandi og eitthvað byrjað að leggja grunn að undirbúningi fyrir HM?
„Við förum að ráðum landsliðsþjálfarans og öndum með nefinu þangað til eftir leikinn.“
Í fyrra leituðu Íslendingar ýmissa leiða til að komast til Frakklands og algengt var að fólk flygi hvert sem er til meginlands Evrópu og keyrði síðan yfir til Frakklands. Hætt er við að það verði ekki eins þægilegt þegar Rússland á í hlut.
Spennustigið er hátt fyrir leikinn gegn Kósovó í kvöld. Það yrði ekki aðeins ótrúlegur árangur og heiður að komast á stærsta íþróttasvið veraldar, það eru umtalsverðar peningaupphæðir í spilinu. KSÍ á nefnilega von á að fá rúmlega milljarð króna í verðlaunafé frá FIFA bara fyrir að taka þátt, hvernig sem fer.