Sport

Skúli Óskarsson tekinn í Heiðurshöll ÍSÍ

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Skúli Óskarsson tekur við viðurkenningunni í kvöld
Skúli Óskarsson tekur við viðurkenningunni í kvöld vísir/ernir
Skúli Óskarsson var tekinn í Heiðurshöll Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands á hófi ÍSÍ og Samtaka íþróttafréttamanna sem fram fór í Hörpu í kvöld.

Austfirðingurinn og fyrrum kraftlyftingamaðurinn setti heimsmet í réttstöðulyftu árið 1980 og var tvisvar kjörinn íþróttamaður ársins, árin 1978 og 1980.

Skúli hóf kraftlyftingar á sjöunda áratugnum og keppti á sínu fyrsta móti árið 1970. Hann setti hvert Íslandsmetið á fætur öðru á komandi árum og náði silfri í léttvigtarflokki á Heimsmeistaramótinu árið 1978.

Skúli lyfti 315,15 kg í réttstöðulyftu árið 1980, sem var heimsmet. Það var í fyrsta skipti sem Íslendingur setti heimsmet í almennt viðurkenndri íþrótt.

Skúli náði þó aldrei að vinna heimsmeistaratitil, eitt silfur og tvö bronsverðlaun urðu að nægja. Hann átti þó þrjá Norðurlandameistaratitla og fjölmarga titla innanlands.

Vilhjálmur Einarsson var fyrstur útnefndur í Heiðurshöllina í janúar 2012. Síðan þá hafa fimmtán aðrir fylgt eftir Bjarni Friðriksson, Vala Flosadóttir, Jóhannes Jósefsson, Sigurjón Pétursson, Albert Guðmundsson, Kristín Rós Hákonardóttir, Ásgeir Sigurvinsson, Pétur Guðmundsson, Gunnar A. Huseby, Torfi Bryngeirsson, Ríkharður Jónsson, Sigríður Sigurðardóttir, Guðmundur Gíslason, Geir Hallsteinsson og Jón Kaldal. 

Skúli er því sá sautjándi sem tekinn er í Heiðurshöllina.



Heiðurshöll ÍSÍ var stofnuð árið 2012 og er það framkvæmdastjórn ÍSÍ sem útnefnir einstaklinga í heiðurshöllina. Heiðurshöllinn var sett á laggirnar til þess að skapa vettvang til að setja á frekari stall framúrskarandi fólk og skapa minningar í máli og myndum af þeirra helstu afrekum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×