Erlent

Al Franken segir af sér

Samúel Karl Ólason skrifar
Al Franken, öldungadeildarþingmaður Demókrataflokksins fyrir Minnesota.
Al Franken, öldungadeildarþingmaður Demókrataflokksins fyrir Minnesota. Vísir/AFP
Öldungadeildarþingmaðurinn Al Franken ætlar að segja af sér á næstu vikum. Það gerir hann í kjölfar ásakana um að hafa brotið kynferðislega gegn konum. Franken sagði nú fyrir skömmu að þó hann væri að segja sæti sínu á þinginu lausu ætlaði hann ekki að þaga.

þar að auki sagði hann að hann muni öðruvísi eftir samskiptum sínum en þær konur sem hafa sakað hann um að brjóta gegn sér. „Ég veit hver ég er.“

Franken sagði einnig að það væri kaldhæðnislegt að hann væri að segja af sér á sama tíma og að Donald Trump, sem hefði montað sig af því að geta káfað á píkum kvenna í skjóli frægðar sinnar, væri forseti.

Einnig væri maður sem hefði ítrekað elst við táningsstúlkur og hefði verið sakaður um að hafa brotið gegn nokkrum stúlkum að bjóða sig fram til þingsins með fullum stuðningi Repúblikanaflokksins og Hvíta hússins.

„Þessi ákvörðun er þó ekki um mig. Hún er um kjósendur Minnesota,“ sagði Franken.

Margir þingmenn Demókrataflokksins hafa á undanförnum dögum kallað eftir því að Franken myndi segja af sér.

Á síðustu vikum hafa minnst sex konur stigið fram og sakað hann um kynferðislega áreitni. Hann hefur beðist afsökunar og annað hvort sagt að hann hafi ekki ætlað sér að særa neinn, eða sagt að hann muni ekki eftir því að umrædd atvik hafi verið eins og konurnar hafa lýst þeim.


Tengdar fréttir

Önnur kona sakar þingmann demókrata um áreitni

Al Franken er nú sakaður um að hafa gripið í rass konu þegar hann var orðinn þingmaður. Hann hafði áður beðið konu afsökunar á atviki sem átti sér stað áður en stjórnmálaferill hans hófst.

Sakaður um að káfa á sofandi konu

Útvarpskonan Leeann Tweeden segir öldungadeildarþingmanninn Al Franken hafa káfað á sér þegar hún var sofandi og kysst hana gegn vilja hennar.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.