Innlent

Óljóst hvað olli stórbruna í bátasmiðju

Sveinn Arnarsson skrifar
Eins og sjá má gjöreyðilagðist allt í brunanum.
Eins og sjá má gjöreyðilagðist allt í brunanum. vísir/auðunn
Ekki er hægt að finna út hvað varð til þess að Bátasmiðjan Seigur á Akureyri brann í lok maímánaðar. Hefur því rannsókn á upptökum brunans verið hætt.

Bátasmiðjan brann til kaldra kola aðfaranótt 31. maí síðastliðins. Um altjón var að ræða og brann allt sem brunnið gat innanhúss. Slökkviliðsmenn voru langt fram eftir morgni að störfum á vettvangi.

Allt tiltækt slökkvilið var kallað út þessa nótt og barðist það við eldinn í húsinu sem var um 2.000 fermetrar að stærð. Þegar mest var voru um 15 slökkviliðsmenn á vettvangi auk lögreglumanna sem lokuðu götum í kring. Allur tækjakostur slökkviliðsins var einnig nýttur. Tjónið af völdum eldsins hleypur á hund­ruðum milljóna króna.

Í byrjun árs kom einnig upp eldur í bátasmiðjunni. Þá var hægt að komast á vettvang áður en eldurinn breiddi úr sér.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er líklegt að eldur hafi kraumað í nokkurn tíma áður en hans varð vart því þegar slökkviliðsmenn komu á vettvang var húsið orðið alelda.

Bátasmiðjan Seigur hét áður bátasmiðjan Seigla. Það fyrirtæki var tekið til gjaldþrotaskipta haustið 2016.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×