Innlent

Suðurlandsvegur lokaður: Vörubíll fastur í vegriði

Atli Ísleifsson og Samúel Karl Ólason skrifa
Vörubíllinn þverar veginn og hafa myndast langar biðraðir.
Vörubíllinn þverar veginn og hafa myndast langar biðraðir. Vísir/Eyþór
Suðurlandsvegur um Hellisheiði hefur verið lokaður vegna umferðarslyss í Hveradölum. Líklega verður vegurinn lokaður um nokkurra tíma skeið á meðan vörubíll og tengivagn, sem þvera veginn, verða losaðir úr víravirkinu sem skilur að aðgreinarnar. Bílstjóri vörubílsins verður fluttur á sjúkrahús í Reykjavík til aðhlynningar.

Í tilkynningu frá lögreglu segir að umferð sé nú beint um Þrengslaveg.

Pétur Pétursson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Árnessýslu, segir að vörubílnum hafi verið ekið á vesturleið þegar ökumaður hans missti stjórn á honum ofan við Skíðaskálabrekkuna svokölluðu. Bíllinn þveri nú veginn og vírar í vegriðinu séu fastir í framhluta bílsins og mjög strekktir.

Sérfræðingar frá Vegagerðinni eru á leið til að aðstoða starfsmenn Brunavarna Árnessýslu til að losa bílinn. Pétur telur þó að það muni taka nokkra klukkutíma.

Uppfært 15:34:

Búið er að opna veginn á nýjan leik.

Slysið varð í Hveradölum.Vefmyndavél Vegagerðarinnar



Fleiri fréttir

Sjá meira


×