Lífið

Er að bíða eftir snjó fyrir norðan

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Einari Kristni finnst skemmtilegt í íþróttaleikjum.
Einari Kristni finnst skemmtilegt í íþróttaleikjum. Vísir/Anton Brink
Einar Kristinn Gunnarsson er tíu ára og er í 5. bekk Oddeyrarskóla á Akureyri. Honum finnst fyrsta spurningin frekar fáránleg. Er alltaf snjór á Akureyri? Heyrðu, ég er nú að bíða eftir snjó en það kemur ennþá enginn.

Ertu skíðamaður? Ja, ég var einu sinni í skíðaskóla en það gekk ekki nógu vel. Ég fer samt stundum með skólanum mínum upp í fjall.

Hvað finnst þér mest gaman að læra? O, ég er ekki mjög mikið fyrir að læra en mér finnst skemmtilegt í íþróttum. Sérstaklega íþróttaleikjum.

Hver er besti vinur þinn? Ég á nokkra vini en alveg besti vinur minn er pabbi minn.

Hvað gerið þið helst saman? Ja, við erum mest latir en okkur finnst skemmtilegt að fara í sund.

Hvað gerið þið þegar þið eruð latir? Ég horfi á vídeó og hann veipar. Það hjálpar honum að hætta að reykja.

Hvaða dýr eru í uppáhaldi hjá þér? Hundar, kettir og páfagaukar, ég á þrjá páfagauka, þeir heita Engill, Blámi og Perla.

Flottustu staðirnir á landinu? Akureyri og Reykjavík. Ég hef ekki farið á alla hina staðina ennþá.

Hvað langar þig að verða? Ég ætla að eiga pitsustað sem heitir Freddi Fazbear‘s Pizza. Það verður staður fyrir afmælisveislur og svoleiðis. Ég mun hafa vélmenni þar sem syngja.

Ætlar þú að baka pitsurnar sjálfur? Nei, ég hef fólk til að gera það.

Er einhver staður í heiminum sem þig langar að skoða? Já, Orlando. Ég er að fara þangað eftir fjóra mánuði.

Hefur þú farið til útlanda áður? Einu sinni. Til Manchester í Englandi. Ég fékk tvær byssur en þurfti að henda þeim hálftíma áður en ég fór í flugvélina af því fólk mundi halda að þær væru alvöru.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.