Innlent

Vagna og Páll Óskar fallast rafrænt í faðma

Jakob Bjarnar skrifar
Vagna segist ekki ætla að erfa þetta við poppstjörnuna, hún hafi fengið skammir, hann athygli. allt er gott og Páll Óskar verði alltaf í uppáhaldi hjá sér.
Vagna segist ekki ætla að erfa þetta við poppstjörnuna, hún hafi fengið skammir, hann athygli. allt er gott og Páll Óskar verði alltaf í uppáhaldi hjá sér.
„Fyrirgefðu, Palli minn. Þetta er bara gleymt. Þú verður alltaf i uppáhaldi hjá mér,“ sagði Vagna Sólveig Vagnsdóttir, trélistakona á Þingeyri á Facebook-síðu poppstjörnunnar Páls Óskars. En þar áttu sér stað hjartnæmar sættir í gær.

Á föstudaginn greindi Vísir frá allsérstæðu máli. Vagna hafði keypt í forsölu plötu Páls Óskars, en með í kaupunum fylgdi það loforð að stjarnan myndi sjálf dreifa plötunni og banka uppá hjá fólki. Páll Óskar er í sérstöku uppáhaldi hjá Vögnu, sem stökk til og keypti plötuna ekki síst uppá þau býtti. Hún hafði hlakkað mikið til að hitta Pál Óskar og varð að vonum sársvekkt þegar svo póstur barst frá Páli þess efnis að hann kæmi því ekki við að mæta með plötuna. Vísir ræddi við Vögnu sem sagði frá því að hún hafi verið búin að hafa til sérstaka gjöf handa Páli, rjúpu sem hún hafði gert sjálf.

Fólk skiptist í tvö horn

Málið vakti mikla athygli og skiptust menn í tvö horn eins og til dæmis má sjá á athugasemdakerfi Vísis. Meðan sumir töluðu um vörusvik voru fjölmargir sem voru á því að Páll hafi gefið svo mikið til þjóðarinnar að það væri skítt að hafa ekki á því skilning að hann hefði ekki orku í að standa við þetta loforð.

Poppstjarnan sjálf gaf svo út yfirlýsingu þar sem hann gekkst við því að hafa færst of mikið í fang og vonaði að fólk gæti fyrirgefið sér. Til boða stæði að fá plötuna endurgreidda eða mæta á hina ýmsu staði og fá hana en þar yrði hann við afhendingu.

Ég er eins og ég er

Í gær gerðist það svo að Vagna, sem var ekki beinlínis í sáttahug þegar Vísir ræddi við hana á föstudaginn, og sagði meðal annars að hann fengi rjúpna aldrei, hún gæfi ekki fólki sem sviki sig, hefur rétt út sáttarhönd.

Hún ritaði á vegg Páls og sagði að hann væri í miklu uppáhaldi hjá sér, og hafi alltaf verið. Hún greindi honum frá gjöfinni og tilhlökkuninni en þetta væri „allt í lagi, Palli. Og takk fyrir öll lögin þín sem eru flott og vel sungin. Takk. Ég er eins og ég er,“ segir Vaka og vitnar þar í eitt vinsælasta lag Páls Óskar.

Páll Óskar (a.k.a. Paul Oscar) var skjótur til svara:

„Elsku Vagna. Fyrirgefðu klúðrið í mér. Ég tek það mjög nærri mér að ég hafi valdið þér vonbrigðum á nokkurn hátt. Mér þætti mjög vænt um ef þú gætir hitt mig á Ísafirði 25. Nóvember. Kemstu þangað?“

Páll fékk athygli og Vagna skammir

Vagna svarar því svo til að þetta sé allt í lagi. Hún erfi þetta ekki við hann og kannski leiði þetta til þess að hann verði í enn meira uppáhaldi hjá sér, fyrir vikið. Og Vagna segir að Páli Óskari að henni finnist lagið „Ég er eins og ég er“ hans besta.

Ég segi alltaf: Ég er eins og ég er, og mér verður ekki breytt. Þú fékkst góða athygli á Fb en ég skammir. Fyrirgefðu Palli minn, þetta er bara gleymt. Þú verður alltaf í uppáhaldi hjá mér.“

Málið hefur þannig fengið farsælar lyktir og gaman að segja frá því.


Tengdar fréttir

Páll Óskar pantaður heim að dyrum

Páll Óskar gefur út sína nýjustu plötu þann 16. september. Hann ætlar að gefa plötuna út á vínyl og geisladisk, ásamt því að hún kemur inn á streymisveitur. Palli mun skutla plötunni til aðdáenda. sem forpanta plötuna, hvert á land sem er.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×