Innlent

Börðu húsráðanda með hafnaboltakylfu

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Hópurinn var handtekinn um klukkustund eftir árásina.
Hópurinn var handtekinn um klukkustund eftir árásina. Vísir/Daníel
Tveir karlmenn og kona voru handtekin í nótt, grunuð um alvarlega líkamsárás í heimahúsi. Eru þau sögð hafa brotist inn á heimilið á þriðja tímanum í nótt og látið höggin dynja á húsráðanda, meðal annars með hafnaboltakylfu.

Hann var fluttur á sjúkrahús með einhverja áverka sem lögregla telur þó ekki vera alvarlega. Enginn annar var á heimilinu þegar lögregla kom á vettvang en um klukkustund síðar voru þremenningarnir handteknir, grunaðir um árásina. Þau voru vistuð í fangageymslu og verða yfirheyrð síðar í dag.

Þá var tvítugur karlmaður handtekinn í miðborginni fyrir ölvun og óspektir um miðnætti. Hafði hann meðal annars brotið stóra rúðu á skemmtistað og hafði meðferðis ólöglegan hníf og eitthvað sem talið er hafa verið fíkniefni. Hann var jafnframt vistaður í fangageymslu.

Á sama tíma var karlmaður um þrítugt handtekinn í Breiðholti vegna heimilisofbeldis. Hann var fluttur í fangageymslu og verður yfirheyrður í dag að sögn lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×