Innlent

Tekinn í Leifsstöð með tugi þúsunda af sterkum verkjatöflum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Hluti af lyfjunum sem lagt var hald á.
Hluti af lyfjunum sem lagt var hald á. tollstjóri
Tollverðir í Flugstöð Leifs Eiríkssonar lögðu nýverið hald á tugi þúsunda sterkra verkjataflna sem flugfarþegi, sem var að koma frá Spáni, hugðist smygla inn í landið. Samtals voru töflurnar 21.237 og hafði þeim verið komið fyrir í kössum í ferðatöskum. Um var að ræða 22 tegundir af sterkum verkjalyfjum.

Að því er fram kemur í tilkynningu frá tollinum hefur lögreglan á Suðurnesjum málið til rannsóknar og leikur grunur á að lyfin hafi verið ætluð til sölu hér á landi. Sá sem grunaður er um að flytja efnin til landsins hefur áður komið við sögu lögreglu.

„Tollstjóri vill af þessu tilefni benda á upplýsingar frá embætti Landlæknis þar sem fram hefur komið að aukning hefur orðið á dauðsföllum vegna misnotkunar sterkra verkjalyfja undanfarin ár.

Samkvæmt dánarmeinaskrá létust 13 af ofnotkun slíkra lyfja árið 2014, 14 manns árið 2015 og 17 á síðasta ári. Sterk verkjalyf eru algengasta orsök lyfjatengdra dauðsfalla, þar með talið ólöglegra fíkniefna, samkvæmt upplýsingum frá Landlækni,“ segir í tilkynningu tollsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×