Lífið

Það er langbest að vera á Íslandi

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Lilja og Sara ætla kannski að halda tónleika saman þegar þær eru orðnar unglingar en fyrst ætla þær að safna sér fyrir hljóðfærum.
Lilja og Sara ætla kannski að halda tónleika saman þegar þær eru orðnar unglingar en fyrst ætla þær að safna sér fyrir hljóðfærum. Vísir/Ernir
Vinkonurnar Sara Louzir og Lilja Andradóttir eru á leiksvæði í hverfinu sínu að halda tónleika með þykjustuhljóðfæri í höndunum. Sara situr í rólunni en Lilja stendur uppi á borði og saman syngja þær með miklum tilþrifum NeiNei, sem Áttan gerði vinsælt fyrr á þessu ári. Falleg dúkka situr í kerru rétt hjá. „Hún er að hlusta á okkur,“ segir Lilja til skýringar þegar laginu lýkur.

Lilja er ljóshærð og bláeyg og Sara svarthærð og brúneyg. Sara kveðst hafa fæðst á Íslandi en mamma hennar og pabbi séu frá Alsír. „Ég hef aldrei átt heima í Alsír, bara á Íslandi, en ég fer stundum til Alsír og heimsæki ömmu mína,“ segir hún.

„Það er langbest að vera á Íslandi. Þar er aldrei stríð,“ segir Lilja sem kveðst hafa fæðst í Frakklandi.

Þær eru báðar nýbyrjaðar í 2. bekk í Dal­skóla í Reykjavík. „Við Lilja erum saman í bekk,“ segir Sara og bætir við að þar séu tveir 2. bekkir. „Við erum í 2.G af því kennarinn okkar heitir Gyða.“ 

„Við löbbum í röð inn í stofuna. Gyða er með bjöllu og þegar hún hringir henni þá hætta allir að tala. Við erum svo þæg,“ lýsir Lilja.  Sara segir Dal­skóla vera góðan skóla „Þar er aldrei neinn að stríða.“ Lilja tekur undir það. „Allir eru góðir vinir, alveg sama hvaða tungumál þeir tala, einn strákur talar spænsku og ein stelpa ensku.“

Best að tefja þær ekki lengur, eru þær ekki að æfa fyrir alvörutónleika? Lilja hikar aðeins áður en hún svarar: „Kannski þegar við erum orðnar unglingar. Þá höldum við tónleika saman.“

„Við erum ekki búnar að safna okkur fyrir hljóðfærum,“ útskýrir Sara. „Ég hugsa að við byrjum á að verða söngkonur.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×