Aðalmeðferð í máli ákæruvaldsins gegn Thomas Frederik Møller Olsen hefst í Héraðsdómi Reykjaness klukkan 9.15 í dag. Thomas er ákærður fyrir að hafa ráðið Birnu Brjánsdóttur bana. Birna hvarf aðfaranótt 14. janúar og fannst lík hennar í fjörunni við Selvogsvita átta dögum síðar, þann 22. janúar síðastliðinn.
Thomas hefur setið í gæsluvarðhaldi síðan 19. janúar en sérsveit Ríkislögreglustjóra handtók hann um borð í grænlenska togaranum Polar Nanoq þann 18. janúar. Thomas, sem er grænlenskur, var skipverji á togaranum sem hafði legið í höfn í Hafnarfirði nóttina sem Birna hvarf.
Thomas Møller mun sjálfur bera skýrslu fyrir dómi í dag. Þar að auki munu þrettán aðrir gefa skýrslu, ýmist í dómsal eða símleiðis. Þar á meðal er Niolaj Wilhelm Herluf Olsen, sem einnig var handtekinn í tengslum við málið og var í gæsluvarðhaldi um tíma. Þá munu fjórir fulltrúar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu líka gefa skýrslu.
Vísir mun fylgjast með öllu sem fram fer í dómsal og flytja lesendum stöðugar fregnir í vaktinni hér að neðan sem uppfærist jafnóðum. Aðalmeðferðin hefst sem fyrr segir klukkan 9:15 en dómshúsið verður opnað 45 mínútum fyrr.
Í beinni: Thomas Møller Olsen kemur fyrir dóm
