Lífið

Íhugar að eignast barn með gjafasæði

Guðný Hrönn skrifar
Sigríði Lenu grunar að margar konur séu í sömu hugleiðingum um barneignir og hún.
Sigríði Lenu grunar að margar konur séu í sömu hugleiðingum um barneignir og hún. Vísir/Eyþór
Fyrir um þremur árum fór flugfreyjan Sigríður Lena Sigurbjarnadóttir að finna fyrir löngun til að eignast börn. Sigríður hefur ekki verið í alvarlegu sambandi í nokkur ár og hún segir það vissulega flækja málin.„Ég hef ekki verið í alvarlegu sambandi í nokkur ár og þess vegna fór ég að hugsa um aðrar leiðir til þess að stofna fjölskyldu. Ég fór að afla mér upplýsinga um það hvort einhverjar konur á Íslandi hefðu farið í gegnum tæknifrjóvgun einar síns liðs, en ég vissi að þetta var gert í Danmörku. Ég komst svo að því að búið var að leyfa tæknifrjóvgun hérna heima og að einhleypar og samkynhneigðar konur voru að nota þessa aðferð til þess að eignast fjölskyldu,“ útskýrir Sigríður sem íhugar nú að eignast barn ein með gjafasæði.Aðspurð hvort það sé eitthvað sem hræði hana við tilhugsunina um að eignast barn ein segir Sigríður: „Nei, í sjálfu sér er ekkert rosalega mikið sem hræðir mig við að gera þetta án maka. En ég á mjög gott bakland þannig að ég myndi í sjálfu sér ekki vera að gera þetta alein.“

„Ég á frábæra fjölskyldu og magnaða vini sem eru allir af vilja gerðir til að hjálpa. Samt sem áður er ég 100% viss um að þetta eigi ekki eftir að vera auðvelt ferli ef til þess kæmi.“

Sigríður, sem er 32 ára, kveðst hafa fundið fyrir miklum stuðningi frá sínum nánustu eftir að hún byrjaði að ræða þetta. „Stuðningurinn er ómetanlegur. Fólkið mitt er fullt skilnings og skilur vel að ég vilji eignast barn, en hvort það verður með þessum hætti kemur í ljós,“ útskýrir Sigríður sem hefur fengið góð viðbrögð við hugmynd sinni úr öllum áttum. „En auðvitað er alltaf einhver sem er ekki sammála þessu og það er auðvitað bara allt í góðu,“ segir Sigríður sem ætlar að taka sér ár í að hugsa málið nánar. „Ég ætla að sjá hvort eitthvað breytist í ástamálunum en ef ekki þá er þetta næsta skref sem ég mun sennilega taka.“

Finnur fyrir pressuSpurð hvort hún verði vör við að það sé mikil pressa á barnlausar konur á hennar aldri að eignast börn svarar Sigríður játandi. „Já, ég finn fyrir þessari pressu og veit að barnlausar vinkonur mínar sem eru í samböndum finna mikið fyrir þessu, þá er alltaf verið að spyrja. Samt sem áður hef ég líka tekið eftir því hvað barneignum hefur seinkað og finnst það bara af hinu góða.“Eins og áður sagði lagðist Sigríður í smá rannsóknarvinnu þegar hugmyndin kviknaði hjá henni og hún var forvitin um hvort fleiri konur væru í sömu sporum og hún. „Ég hef lesið sögur íslenskra kvenna sem hafa gengið í gegnum þetta ferli og þegar ég fór að tala um þetta við vinkonur mínar þá vissu þær undantekningarlaust um einhverja sem væri í þessum hugleiðingum eða búin að fara í þetta ferli. Ég er nokkuð viss um að það eru fleiri konur að hugleiða þetta en við ímyndum okkur,“ segir Sigríður sem bloggar á fagurkerar.is. Nýverið birti hún færslu með pælingum sínum um barneignir á blogginu. „Þá sendu nokkrar konur mér sínar sögur. Mér þykir rosalega vænt um það og met mikils. Reyndar hef ég líka fengið mikið af skilaboðum og vinabeiðnum á Facebook frá karlmönnum sem ég hef einhvern tímann talað við á Tinder. Ég hlæ bara því að það er eiginlega of fyndið.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.